Fyrr í dag funduðu forsvarsmenn LS með atvinnuveganefnd Alþingis. Á fundinum var farið yfir helstu áherslumál félagsins sem viðkoma breytingum á lögum um stjórn fiskveiða og reglugerðum. Auk þessa var landssambandið kynnt, enda margir nefndarmanna á sínu fyrsta ári í þingmennsku.
Mesta áhersla var lögð á strand- og makrílveiðar. Einnig voru ræddar kröfur LS að auka heildarafla í þorski, um línuívilnun, byggðakvóta, veiðigjald og samþykktir aðalfundar. Hafa ber í huga að framangreind upptalning er ekki tæmandi.
Hvað viðkemur strandveiðum var lögð áhersla á mikilvægi þeirra í að auka sátt um stjórnkerfi fiskveiða og fyrir hinar dreifðu byggðir, leið fyrir nýliða til að hefja útgerð. Allir þessir þættir mundu eflast ef krafa LS um „fernuna (samfelldar strandveiðar í maí – ágúst, fjóra daga í viku) næði fram að ganga. Þó afli mundi aukast yrði það ekki í beinu samhengi við fjölgun daga, þar sem sókn og viðhorf mundi gjörbreytast. Að lokum var lögð áhersla á að strandveiðar hefðu ekki notið þeirrar aukningar sem orðið hefði á þorskkvótanum frá árinu 2011.
Varðandi makrílinn var ítrekuð áhersla félagsins um að aflétta öllum veiðitakmörkunum á færaveiðar þar til hlutdeild smábáta í heildarafla nær 16%.
Fundurinn stóð í um klukkustund og spruttu fram góðar umræður. Með fundinum hefur upplýsingum um áherslumál LS verið komið milliliðalaust til nefndarmanna í atvinnuveganefnd. Nefndar sem fjallar um málefni smábátaeigenda þegar þau eru til umræðu á Alþingi.