Landssamband smábátaeigenda og Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda áttu með sér formlegan fund á Alþjóðadegi fiskveiða þann 21. nóvember.
Á undanförnu misseri hafa félögin átt í óformlegum viðræðum um að sameina krafta sína í málefnum þar sem hagsmunir fara saman.
Á fundinum í gær var farið yfir fjölda þátta sem snerta sjávarútveginn, samskipti við stjórnvöld og önnur hagsmunasamtök. Mest umræða varð um:
• Strandveiðar• Veiðigjald• Fiskmarkaði• Tvöfalt verð sjávarafla• Markaðsmál• Umhverfisvænar veiðar
Fram kom hjá SFÚ að strandveiðar smábáta hefðu reynst fyrirtækjum innan samtakanna afar vel. Með þessum veiðum hefði þeim tekist að uppfylla kröfur markaðarins, hér á landi og erlendis um samfellt framboð á ferskum fiski allt árið.
SFÚ taldi þann árangur sem LS hefði náð varðandi eflingu strandveiða vera undraverðan og fagnaði ákvörðun ráðherra um aukningu heimilda um 1.200 tonn miðað við reglugerð um veiðar í atvinnuskyni 2016/2017.
SFÚ sagði félagsmenn sína hafa áhyggjur af hækkun veiðigjalda á tegundum sem heyra til botnfisks. Fiskverð skilaði útgerðum smábáta ekki þeirri afkomu sem dygði til að greiða óbreytt veiðigjald. Nauðsynlegt væri að stjórnvöld kæmu til móts við kröfu LS um lækkun gjaldsins. Auk hugmynda um þrepaskiptingu veiðigjalds voru aðilar sammála um að það ætti að taka mið af því hversu miklum virðisauka afli seldur á fiskmarkaði skilaði þjóðinni.
Nauðsynlegt væri að efla frjálsa verðmyndun við sölu afla. Ein leið til þess væri að auka framboð á afla á uppboðsmarkaði. Þannig gætu vinnslur sem ekki hefðu kvóta keppt á jafnréttisgrundvelli. Veiðigjald gæti leikið stórt hlutverk í ferlinu með því að undanskilja afla sem boðinn væri upp á fiskmörkuðum.
Aukið framboð mundi efla fiskvinnslur sem alfarið væru háðar mörkuðum, þær gætu bætt við sig sem mundi viðhalda öflugri samkeppni. Hærra fiskverð þýddi hækkun útflutningsverðmæta, tekjuaukningu fyrir hafnir og til hinna dreifðu byggða og síðast en ekki síst hærri laun fyrir sjómenn.
Það sem hér er nefnt er ekki tæmandi frásögn af fundinum, en önnur mál sem rædd voru eru skemur á veg komin. Þar undir eru markaðsmál og áhersla á ívilnun við umhverfisvænar veiðar.
Aðilar voru sammála um að halda viðræðum áfram.
Þátttakendur á þessum fyrsta formlega fundi SFÚ og LS
fv. Kristján Berg í stjórn SFÚ, Axel Helgason formaður LS, Aðalsteinn Finsen í stjórn SFÚ,
Arnar Atlason formaður SFÚ, Örn Pálsson framkvæmdastjóri LS