LS þrýstir á framhald makrílveiða

Færaveiðar smábáta á makríl hafa gengið vel undanfarna daga.  Veiðisvæðið er við Snæfellsnes og landa bátarnir á Rifi og Ólafsvík.  Hluti aflans er unninn á þessum stöðum annað er keyrt til viðkomandi kaupenda.
Við vinnslu makrílsins starfa hundruðir auk þeirra sem hafa atvinnu af veiðum og annarri umsetningu honum tengdum.  Að mati vinnsluaðila er makríllinn sem nú veiðist stór og gæði mikil.  Makríllinn er ýmist lausfrystur, flakaður eða plötufrystur í 5 – 15 kg pakkningar og seldur á dýra markaði erlendis.  
Vinnsluaðilar hafa með markaðsstarfi og framleiðslu á gæðaafurð tekist að ná til aðila sem vilja einungis færaveiddan makríl.  Þessir markaðir hafa á yfirstandandi vertíð veitt vörunni mikla athygli og er eftirspurn nú meiri en hægt er að anna.  Það er því gríðarlega mikilvægt að ekki komi til stöðvun veiðanna.   
Makríll.jpg
Viðmiðunarafli til færaveiða er 3.200 tonn.  Samkvæmt tölum Fiskistofu á enn eftir að veiða um 700 tonn.  Miðað við gang veiðanna má gera ráð fyrir að þær klárist í þessari viku.
Útgefnar veiðiheimildir eru rúmar 129 þús. tonn, en búið er að veiða alls 96 þús. tonn.  Mikilvægt hlýtur að teljast fyrir íslenska hagsmuni að veiðiheimildirnar nýtist að fullu eins og undanfarin ár.  Í ljósi þessa og framangreindra hagsmuna eru smábátaeigendur því bjartsýnir á að sjávarútvegsráðherra komi í veg fyrir að færaveiðar smábáta stöðvist nú í vikunni og tryggi áframhaldandi veiðar þeirra báta sem þær stunda.   
Landssamband smábátaeigenda ræddi þessi mál við Sigurð Inga Jóhannsson sjávarútvegsráðherra í síðustu viku.  Í kjölfarið ritaði félagið honum bréf þar sem áherslur félagsins koma fram. 
Löndun á Hólmavík.jpgLöndun á Hólmavík 19. ágúst