Það eru fleiri fisktegundir en grásleppan sem hegðar sér einkennilega um þessar mundir. Lúða sem varla hefur sést undanfarin ár kemur nú í talsverðu magni sem meðafli. Smábátaeigendur hafa greint frá þessu og á það bæði við veiðar í net og á línu.
Fréttir af þessari uppákomu hafa bæði borist frá Breiðafirði og Norðurlandi. Dæmi eru um 10 – 15 lúður í róðri þar sem varla hefur sést lúða árum saman.
Reglur sem gilda um lúðuveiðar eru tilgreindar í reglugerð. Þar kemur m.a. fram að: Beinar veiðar á lúðu eru með öllu bannaðar.
- Skylt er að sleppa lífvænlegri lúðu sem kemur um borð.
- Við línuveiðar skal sleppa allri lúðu með því að skera á taum línunnar.
- Við handfæra- og sjóstangaveiðar skal losa lúðuna varfærnislega af krókum eða skera á lykkju slóðans áður en lúða kemur um borð.
Auk þessa skal lúðuafli seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði þar sem 20% af andvirði aflans kemur til útgerðar sem skiptir því milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum.
LS hefur brugðist við þessari skyndilegu breytingu sem orðið hefur á göngumynstri lúðunnar með bréfi til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Í bréfinu er krafist endurskoðunar á reglugerð þannig að heimilt verði að landa lúðu sem fæst sem meðafli og andvirði af sölu skili sér að fullu til útgerðar og sjómanna. LS tekur það sérstaklega fram að áfram verði óheimilt að stunda beina sókn í lúðu.