Makrílkvótinn framseljanlegur

Breyting sem sjávarútvegsráðherra hefur gert á reglugerð um makrílveiðar ber þess ekki merki að hann hafi í hyggju að falla frá kvótasetningu smábáta á makríl.  Þar er kjöt fest á bein kvótasetningarinnar með því að heimila framsal veiðiheimilda sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur hennar.  Fækkun báta er því fyrirsjáanleg verði ekki horfið frá kvótasetningu.   
Kvóti á hvern smábát hefur m.a. þær afleiðingar að tugir aðila sem keypt hafa búnað til makrílveiða bíður það eitt að ljúka greiðslum vegna hennar án þess að fá tekjur á móti.  Engin not verða fyrir fárfestingu uppá hundruði milljóna.  Þetta er þeim mun grátlegra þegar horft er til þess að engin þörf er á kvótasetningunni.  Smábátar veiða aðeins brot af heildarkvótanum og geta aldrei ógnað sjálfbærni makrílstofnsins.     
Fundur með forsætisráðherra

Í gær bárust upplýsingar frá forsætisráðuneytinu þess efnis að ráðherra sæi sér ekki fært að verða við beiðni LS um fund í þessari viku né í þeirri næstu.  Það eru gríðarleg vonbrigði þar sem því verður vart trúað að hann leggi blessun sína yfir slíka embættisfærslu sem hér hefur átt sér stað.  Vandséð að skoðað hafi verið þegar kvótasetning var ákveðin, hver sé hinn risavaxni ávinningur sem hún muni skila þjóðfélaginu sem réttlætir milljónatjón hjá hundruðum einstaklinga.