Makríll – Fjóla GK fær mest

Fiskistofa hefur birt lista yfir veiðiheimildir smábáta á makríl á komandi vertíð.  Útreikningar byggja á reglugerð sem ráðherra setti 16. júní sl. og LS hefur mótmælt.  
Alls kemur í hlut smábátaflotans 7.026 tonn sem er 4,1% heildarkvótans.  Úthlutunin skiptist milli 192 báta.
Líklegt er að kvótasetningin bindi enda á makrílveiðar tuga báta, en alls eru 168 bátar sem skipta með sér 45,2% heimildanna – 19 tonn á bát. Þeir sem hófu veiðar í fyrra fá nú úthlutað kvóta sem er innan við helmingur þess sem þeir veiddu þá.  
Samkvæmt reglugerð styðst úthlutun á hvern bát við eftirfarandi ákvæði reglugerðarinnar. 
„Við ákvörðun aflaviðmiðunar hvers skips skal makrílafli almanaksáranna 2009-2012 hafa 43% aukið vægi umfram afla almanaksáranna 2013 og 2014.
Mestan kvóta smábáta fær Fjóla GK 121 – 331,5 tonn.  Báturinn hefur stundað makrílveiðar frá árinu 2011 eða alls 4 ár af þeim 6 sem aflareynsla til kvóta er miðuð við.  
Þannig að félagsmenn átti sig á útreikningi sbr. framanritað lítur dæmið þannig út varðandi Fjólu.
                           Afli 43% viðbót Viðmiðun
2011   52.098 kg   22.399 kg         74.490 kg
2012 243.061 kg 104.516 kg       347.577 kg
2013 152.963 kg            0 kg       152.963 kg
2014 105.254 kg            0 kg       105.254 kg
 
                                                           Samtals 680.284 kg
Heildarviðmiðun er 14.418 tonn, þ.e. samanlagður afli 2009 – 2012 með 43% álagi auk afla áranna 2013 og 2014.  Hlutdeild Fjólu er 4,72%.