Makrílstofninn í hæstu hæðum

Birtar hafa verið niðurstöður sameiginlegs makrílleiðangurs Íslendinga, Grænlendinga, Færeyinga og Norðmanna sem farinn var á tímabilinu 3. júlí til 4. ágúst sl.  Markmið leiðangursins var aðallega að kortleggja útbreiðslu og meta lífmassa makríls, síldar og kolmunna í Norðaustur Atlantshafi meðan á sumarætisgöngum þeirra stendur, eins og segir í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar. 
 
Heildarvísitala makríls var metin bæði fyrir lífmassa og fjölda fiska.
Vísitala:
Lífmassi 10,3 milljónir tonna sem er 13% auking frá í fyrra 
Fjöldi fiska 24,2 milljarðar sem er 2% minnkun frá 2016
Frá því fyrst var farið í slíkan leiðangur árið 2009 hefur vísitala lífmassa ekki mælst hærri og þá var fjölda vísitalan í fyrra sú hæsta sem mælst hefur.  Niðurstaðan er í fullu samræmi við upplifun sjómanna nú að makríllinn sé nú mun vænni en hann var í fyrra.
Mælingar á aldurssamsetningu sýndu að fjórir árgangar mynda 2/3 af vísitölu fjölda fiska: 
2010 (19 %)
2011 (19 %) 
2012 (14 %) 
2014 (15 %) 
Í fréttatilkynningunni er þess einnig getið að vísitalan fyrir eins árs makríl (2016 árgangurinn) var há í sögulegu samhengi, sem er vísbending um áframhaldandi góða nýliðun í makrílstofninum. 
Þéttleiki makríls hér við land var mestur vestan við landið, líkt og var 2016.