Í Fiskifréttum í gær 22. júlí birtist grein eftir Örn Pálsson
Grásleppuvertíðinni 2021 sem formlega lýkur 12. ágúst næstkomandi verður einkum minnst fyrir tvennt. Tuga prósenta aukningu á leyfilegum heildarafla og gríðarlegt verðfall á afurðinni.
Fyrir tveimur árum ráðlagði Hafrannsóknastofnun að heildarafli færi ekki umfram 4.805 tonn. Hverjum bát var heimilt að veiða í 44 daga og varð aflinn á nánast á pari við útgefið heildarmagn, 4.952 tonn.
Í ár var hins vegar heimilt að veiða 9.040 tonn eða nánast tvöfalt meira. Mælingar Hafró komu sjómönnum ekki að óvörum þar sem þær voru í samræmi við upplifun þeirra og veiði á árinu 2020.
Markaður erfiður
Umsýsluaðilar með grásleppuhrogn og kavíarframleiðendur voru hins vegar ekki viðbúnir þessari miklu aukningu. Markaðurinn tæki ekki við svo miklu magni og verðfall yrði því óumflýjanlegt. Ofan á bættist að markaður fyrir frosna grásleppu hafði lokast vegna Covid veirunnar. Við upphaf vertíðarinnar voru horfur mörkuðum slæmar.
Verð á vertíðinni 2019 var 327 kr/kg fyrir grásleppu úr sjó, en við upphaf yfirstandandi vertíðar tilkynntu kaupendur að þeir gætu greitt 130 kr/kg eða 60% lækkun. Grásleppan sem keypt hefði verið á vertíðinni 2020 væri enn í frystigámum í Kína og því ekki rétt að bæta á þann vanda með áframhaldandi útflutningi þangað. Verðið á vertíðinni væri því einungis byggt á hrognum til kavíarvinnslu. Fyrir lá að sá markaður tæki ekki við því magni sem leyfilegt væri að veiða. Útgefið verð væri því einnig sett svo lágt til að letja menn til veiða.
Þegar vertíð hófst kom jafnframt í ljós að stór kaupandi til áratuga, Ísfélagið (ORA) tilkynnti sjómönnum að fyrirtækið myndi ekkert kaupa í ár. Ákvörðun fyrirtækisins voru skýr skilaboð um hversu alvarlegt ástand ríkti á mörkuðunum
Veiðistjórn og markaðir
Þegar aðstæður sem hér hafa verið raktar koma upp gerist sú spurning áleitin hvort fiskveiðistjórnun eigi að taka tillit til aðstæðna á mörkuðum. Dæmi eru um að hluti sjómanna sem stundað hafa grásleppuveiðar undanfarin ár höfðu ekki kaupanda af hrognunum og urðu því að sitja vertíðina af sér, tekjulausir með öllu. Offramboð inn á þennan örmarkað hefur einungis leitt til verðfalls og í mörgum tilfellum síðastliðna áratugi hefur tekið nokkur ár að ná fram jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar.
Markaðsátaks er þörf
Landssamband smábátaeigenda hefur í rúma þrjá áratugi staðið fyrir upplýsingafundum um grásleppumál. Þar hittast fulltrúar þeirra þjóða sem stunda grásleppuveiðar, framleiðendur grásleppukavíars og umsýsluaðilar með grásleppuhrogn og grásleppukavíar. Á fundum þessum síðastliðin ár hafa aðilar lýst áhyggjum sínum á að markaður fyrir vöruna sé að dragast saman. Augljóst er að þessir aðilar glíma nú við erfiðleika á markaðinum og því þarf að koma til ærlegt markaðsátak til að snúa þeirri þróun við. Að markaður verði fyrir það sem er heimilt að veiða.
Höfundur er framkvæmdastjóri
Landssambands smábátaeigenda