Þann 14. janúar sl. sendi Örn Pálsson framkvæmdastjóri LS stjórn Gildis-lífeyrissjóðs tillögur.pdf um breytingar á samþykktum sjóðsins.
Í greinargerð kom fram að markmið þeirra væru eftirfarandi:
1. Auka lýðræði innan sjóðsins með því að tryggja öllum sjóðfélögum atkvæðisrétt á ársfundi
og öðrum fundum sjóðsins.
2. Auka vægi sjóðfélaga í stjórn sjóðsins.
3. Gefa sjómönnum, sem starfa sinna vegna komast ekki til ársfundar, kost á að taka þátt í
ársfundi með því að tilnefna aðila í sinn stað.
4. Gefa sjóðfélögum kost á að bjóða sig fram á ársfundi til setu í stjórn.
5. Tryggja fulltrúum allra aðildarsamtaka sjóðsins möguleika á stjórnarsetu.
6. Takmarka starfstíma fulltrúa í stjórn sjóðsins.
7. Auka skilvirkni í eftirliti með sjóðnum með því að kjósa endurskoðanda og eftirlitsaðila á
tveggja ára fresti.
Á fulltrúaráðsfundi sjóðsins sem haldinn var 7. apríl sl. tilkynnti Árni Guðmundsson framkvæmdastjóri sjóðsins að tillagan hefði verið lögð fyrir samtök stéttarfélag og samtaka atvinnurekenda sem að sjóðnum standa. Hjá þeim aðilum hefði ekki verið meirihluti fyrir því að tillagan yrði lögð fyrir aðalfund og kæmi hún því ekki til umræðu þar. Vitnaði framkvæmdastjórinn í grein 24.2. í samþykktum sjóðsins vegna þessa, sem orðast svo:
24.2. Tillaga að breytingu á ákvæðum sem teljast efni kjarasamninga, s.s. um iðgjöld og stjórnskipan sjóðsins, þ.á.m. um hlutverk og skipan fulltrúaráðs og stjórnar, verður einungis tekin fyrir á ársfundi að fyrir liggi samþykki 2/3 hluta samtaka atvinnurekenda og launþega sem að sjóðnum standa. Um vægi atkvæða einstakra aðildarfélaga sjóðsins fer þá eftir ákvæðum í gr. 5.3. og þarf þá bæði samþykki tilskilins meirihluta samtaka stéttarfélaga og samtaka atvinnurekenda sem að sjóðnum standa.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem framkvæmdastjóri LS leggur fram samhljóða tillögu sem fékk nú sömu örlög og áður. Í ljósi þjóðfélagsumræðunnar um lífeyrissjóðina ákvað hann hins vegar að gera aðra tilraun, enda sannfærður um að samþykkt tillögunnar myndi hafa jákvæð áhrif á ásýnd lífeyrissjóða.