Milljón tonn á sjö árum

Frá árinu 2010 hafa íslensk skip veitt milljón tonn af makríl í íslenskri lögsögu.  Milljónasta tonnið var innbyrt í lok september sl. þegar aflinn á yfirstandandi vertíð náði 142.221 tonni.
Engum dylst að koma makrílsins á Íslandsmið hefur haft mikil áhrif á afkomu útgerðar, tekjur sjómanna og hag landsmanna allra.  Útflutningsverðmæti makrílafurða, að undanskildu mjöli, frá árinu 2010 til og með 2015 nam 110 milljörðum.  Á bakvið þá tölu eru um 600 þús. tonn og meðalverð því 184 kr/kg.   
Rekja má makrílveiðar hér við land til ársins 2007, þegar hann veiddist sem meðafli við síldveiðar suður og austur af landinu.  Árið 2008 hófst veiði hans fyrir alvöru þegar veidd voru 112 þús. tonn og árið 2009 voru veidd 116 þús. tonn.  Aðeins 10% af þessum afla fór í vinnslu til manneldis.   
Taflan hér að neðan sýnir makrílafla smábáta, fjölda á veiðum, meðaltal, heildarafla og hlutdeild smábáta ár hvert frá 2010 og það sem af er yfirstandandi vertíð.  
Árið 2014 voru veiðar smábáta stöðvaðar í mokveiði og þeir í kjölfarið kvótasettir.  Markmið LS er að í hlut smábáta komi 16%.  Það er því afar brýnt að viðbótarkvóti verði aukinn þannig að sem flestir smábáta geti nýtt sér makríl til veiða.
Screen Shot 2016-10-04 at 12.45.50.jpg