Í morgun fóru að berast til skrifstofu LS fregnir þess efnis að Norðmenn stæðu bókstaflega upp í eyrnasneppla í grásleppuhrúgunni á nýhafinni vertíð þar í landi.
Haft var samband við Norges Rafisklag til að fá staðfest sannleiksgildi þessara tíðinda. Norges Rafisklag er nokkurskonar alfræðistofnun um tölur, lög og reglur í norskum sjávarútvegi. Í ljós kom að um var að ræða dugmikla sögumenn sem fanst vanta líflega umræðu um grásleppumálin. Fulltrúi Norges Rafisklag sagði veiðarnar hjá þeim örfáu bátum sem lagt hefðu grásleppunet afar rólega.
Á hinum árlega alþjóðlega fundi um grásleppumál (LUROMA) sem þetta árið var haldinn í Lundúnum í byrjun febrúar kom fram að fulltrúar Norðmanna töldu litlar líkur á því að mikil ásókn yrði í þessar veiðar vegna góðrar stöðu þorskkvótanna og breyttu fyrirkomulagi frá í fyrra um þorskveiðistöðvun á háannatímanum.
Senn hefjast grásleppuveiðarnar á Grænlandi. Það verður athyglisvert að fylgjast með gangi mála þar á bæ, því Grænlendingar hafa í hyggju að veiða mun stærra svæði en undanfarin ár, m.a. svæði allt norður undir Disco Bay. Minni ís á þessari slóð gerir slíkar tilraunir raunhæfar.
Heildarveiðin hérlendis það sem af er vertíðinni er rúm 40% af því sem hún var á sama tíma í fyrra. Þá er veiðin á rauðmaga jafnvel enn minna hlutfall í þessu samhengi. Vertíðin hérlendis 2010 var metvertíð í flestum skilningi. Góð veiði, góð tíð, gott verð, kaupendur skorti hrogn og veiðin á Nýfundnalandi brást, fjórða árið í röð.
Það er mikil bjartsýni að halda að slík vertíð endurtaki sig á þessu ári. Það breytir þó ekki því að ef verð haldast þokkaleg, m.a. vegna minni veiði, geta uppgripin orðið þokkaleg. Næstu 2-4 vikur munu að mestu skýra hvernig mál munu leggjast á Íslandi og ekki löngu síðar verður það sama ljóst í Noregi og Grænlandi.
Stóra spurningamerkið er Nýfundnaland. Þar hefur veiðin brugðist illilega 4 ár í röð. Nú eru aðstæður hinsvegar mikið breyttar. Hafís er ekki til trafala að neinu ráði, sjávarhiti eðlilegur og ekki lengur það sem veiðimenn þar í landi hafa kallað ‘dirty water’. Hafi þeir lagt net sín í þann ófögnuð fyllast þau af slími og veiði ekki neitt. Nú virðist þeta fyrirbrigði farið að sinni, a.m.k. Vertíðin á þeim bæ byrjar ekki fyrr en í maí og henni jafnvel frestað fram eftir mánuðinum, séu veður válynd og eða þeir sem fara og leggja verða lítið varir.
Þessi mynd af landsel er tekin af starfsmanni BioPol á Skagaströnd. Selnum var gefið nafnið Sókrates sökum óvanalegra námshæfileika. BioPol hefur í þrjú ár unnið að verkefni þar sem selir eru þjálfaðir og sendir með tilheyrandi tæki föst við sig sem safna stafrænum vídeómyndum af mönnum við veiðar, t.d. við netadrátt. Verkefnið er m.a. unnið í samvinnu við Fiskistofu, sem mun nota gögnin sem sönnunargögn í brottkastsmálum. Selir þessir eru auðþekktir á litla loftnetinu sem þeir eru með á hausnum.