Nýliðun og dreifðar byggðir


Endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins 
Nýliðun og dreifðar byggðir 
Er yfirskrift greinar eftir Halldór Ármannsson sem birtist í Fiskifréttum 19. mars sl.
Núna þegar stendur yfir endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða eða breytingar á reglugerðum þar að lútandi er ekki úr vegi að benda á nokkra þætti sem stjórnvöld mættu huga að. 
Fyrst skal þar nefna makríl.  Því hefur verið haldið fram að þar blasi við kvótasetning og hefur ósamkomulag um veiðimagn milli landa að mestu komið í veg fyrir að sú hafi orðið raunin ennþá. Það er einfalt fyrir stjórnvöld að halda þessum veiðum áfram með þeirri stýringu sem verið hefur hingað til og auka jafnframt það magn sem ætlað er til veiða með krókum. 
Halldór  Á.jpg
Frjálsar færaveiðar á makríl
Landssamband smábátaeigenda gerir kröfu um frjálsar færaveiðar á makríl.  Það fyrsta sem við forsvarsmenn LS erum spurðir um þegar við förum fram á auknar heimildir til veiða er: Hvar ætlið þið að taka þær?  Þar sem ekki hafa náðst samningar er svarið einfalt, við ætlumst til að íslensk stjórnvöld haldi þannig á spilunum að kröfu okkar sé haldið á lofti í viðræðum við makrílþjóðirnar. 
Það hlýtur að vera okkur til framdráttar að hér hafi orðið til myndarlegur floti báta sem stundar færaveiðar á makríl. Veiðarnar umhverfisvænar, stundaðar af 
smábátum sem landa aflanum 

Screen Shot 2015-03-20 at 16.37.57.png
daglega til manneldisvinnslu. Gríðarleg lyftistöng fyrir hinar dreifðu byggðir landsins.  Að setja = merki milli færaveiða smábáta og flottrollsveiðar uppsjávarskipa sem veiða á þriðja þúsund tonn í flotvörpu í einni veiðiferð er út úr kortinu.  Íslendingar eiga að taka Norðmenn sér til fyrirmyndar þar sem um 15% makrílaflans er veiddur af smábátum á færi.  Þannig mundu stjórnvöld tryggja hagsmuni þjóðarinnar betur heldur en að reka þá stefnu að hagkvæmast sé að nýta auðlindina með sífellt stærri og færri skipum. 
Nýliðun ábótavant
Mikið hefur verið deilt á þá veiðistýringu sem við búum við – kvótakerfið. Þar er allt niðurneglt á allan máta með aflareglu á margar tegundir og vottanir á sjálfbærni fiskistofnana gera það að verkum að hvergi má fara út fyrir rammann.
Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að ef ekki á vera aðgengi fyrir nýliða til þess að byrja sjósókn þá verða þeir ekki til. Í nágrannalöndum okkar er reynt að fá nýliðana til þess að reyna fyrir sér með því að hafa frjálsar veiðar að vissu marki og einnig með styrkjum. Sá sem rær eða veiðir þarf þá að vera eigandi eða stjórnandi báts. Þannig er komið í veg fyrir að stór fyrirtæki geti gert út marga smábáta í opnum veiðum. Eins er miðað við að tekjur þeirra sem sækja um leyfi séu ekki yfir ákveðnum mörkum í öðrum atvinnugreinum.
Skipverjum stærri skipa fækkar
Í aflamarkskerfinu hefur þróunin verið sú að engar hömlur eru á stærð báta og eru þeir stærstu um og yfir 80 metra og 3.500 til 4.000 brt. Þar hefur skipverjum  fækkað í samræmi við stærð bátanna og þróun búnaðar við veiðar. Þar hafa skipin stækkað og þeim hefur fækkað og eins og áður sagði hefur fækkað í áhöfnum þessara skipa. Og þar eru nýliðarnir ekki að streyma um borð í bátana, meðalaldur fer hækkandi.
Þær breytingar sem gerðar voru á krókaaflamarkinu með stækkun báta í 30 tonn hafa leitt til þess að sóknarþungi krókabáta hefur aukist og stærri bátarnir sækja og róa meira en áður. Framboð á krókaaflamarki á leigumarkaði hefur minnkað að sama skapi. Það hefur leitt til þess að erfiðara er fyrir eigendur kvótalítilla báta að láta enda ná saman.
Strandveiðar
Landssamband smábátaeigenda hefur bent á þann sjálfsagða og nauðsynlega hlut að auka vægi strandveiða með því að leyfa strandveiðibátum veiðar að lágmarki 4 daga í hverri viku yfir sumarmánuðina. Þær aðgerðir ásamt auknum færaveiðum á makríl  myndu styðja vel við hinar dreifðu byggðir landsins og koma sér vel fyrir alla sem þær stunda. 
Veiðar smábáta af ákveðinni stærð eru ekki það stór biti af fiskveiðum á Íslandi að það setji fiskistofna í uppnám til lengri tíma litið. En á meðan ekkert er aðhafst við að beina nýliðum í  greinina, fækkar þeim einyrkjum sem nýta aulindina og aflaheimildir færast að sama skapi á færri og stærri útgerðir. Það er að gerast á sama tíma og loksins er að verða heimsátak í að beina fiskveiðum í meiri mæli í þá átt að meira sé veitt á smábátum. 
Höfundur er formaður Landssambands smábátaeigenda.