Undirritaður hefur verið samningur milli Skeljungs hf, Sjávarkaupa hf og Landssambands smábátaeigenda, fyrir hönd á þriðja hundrað smábátaeigenda um kaup á a.m.k. 7 milljónum lítra af eldsneyti. Samningurinn tekur gildi 1. janúar næstkomandi og gildir út 31. desember 2017, með möguleika um endurskoðun á samningstímanum og framlengingu.
Samningurinn hefur átt sér töluverðan aðdraganda þar sem LS hefur um nokkurt skeið fylgst grannt með olíuverði og birt mánaðarlega verð frá dælu hjá olíufélögunum þremur Skeljungi, N1 og OLÍS. Markmiðið var að efla samkeppni og ná þannig fram lægra verði fyrir smábátaeigendur.
Í haust var ákveðið að reyna að knýja fram lægra innkaupsverð með útboði. LS leitaði í því skyni til Sjávarkaupa hf sem er þekkingar- og þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í útboðum, innkaupum, innflutningi og eftirfylgni útboða.
Fjórum olíufélögum var gefinn kostur á að bjóða í kaupin. N1 og Olís skiluðu ekki inn tilboði. Með samningnum fá smábátaeigendur bætt kjör og formúluverð sem er beintenging við þróun heimsmarkaðsverðs og gengis sem er gríðarlega stór áfangi fyrir félagsmenn í LS til bættra kjara.
Auk afsláttar á olíu á bátana tekur samningurinn einnig til smurolíu, smurefna og eldsneytis (bensín og olía) á bíla félagsmanna.
LS hvetur félagsmenn sem enn eiga eftir að staðfesta þátttöku í samningnum að gera að sem fyrst.
Myndin er frá undirritun samningsins.
Frá vinstri: Pétur Sigurgeir Sigurðsson, Örn Pálsson, Samúel Guðmundsson