Olíunotkun Straums ST 65 3,8% af aflaverðmæti

Um áramótin 2009-2010 birtust hér á vefnum fréttir og vangaveltur um olíunotkun við fiskveiðar. Þar var m.a. skorað á LÍÚ að birta slíkar upplýsingar um togveiðar.  Eitthvað stendur á viðbrögðum því enn hefur ekki heyrst bofs frá LÍÚ um málið.  

Hinn 3. janúar 2010 birtust hér á síðunni upplýsingar um olíunotkun smábátsins Straums ST 65, en báturinn er gerður út á línuveiðar á bolfiski og netaveiðar á grásleppu.  Straumur er hraðfiskibátur og því síður en svo neyslugrannur.  Væri hann bíll myndi hann sjálfsagt falla í flokkinn með stórum amerískum pallbílum.
Olíunotkunin á Straum á árinu 2009 var 3,6% af aflaverðmæti og þá skilaði hver lítri af olíu kr. 2491.- í aflaverðmæti.
Már Ólafsson, eigandi Straums liggur ekki á upplýsingunum um þessa hluti.  Hann sendi fyrir stuttu á skrifstofu LS upplýsingar um olíunotkunina fyrir árið 2010.
Olíunotkun Straums ST 65 árið 2010 var 3,8% af aflaverðmæti og hver lítri af olíu skilaði kr. 2835.- í aflaverðmæti.
Meðalverðið á olíulítra hækkaði um rúm 17% milli ára sem er nánast nákvæmlega sama %hækkunin og var á aflaverðmæti pr kíló.
Heildaraflaverðmætið var rúmar 23,3 milljónir fyrir 64.364 kg.  M.ö.o.: olíukostnaður Más var því rétt um 14 kr. við að ná í hvert kíló af fiski sem skilaði að meðaltali 363 krónum í aflaverðmæti.
Straumur.png
Notkun orku við fiskveiðar mun leika sífellt stærra hlutverk í framtíðinni og því sjálfsagt mál að bera saman olíunotkun hinna ýmsu skipastærða og veiðarfæra.  Hér með er því ítrekuð áskorun til LÍÚ að birta slíkar upplýsingar um togveiðarnar.