LS hefur tekið saman tölur um útflutning á ferskum þorski og ýsu á fyrsta þriðjungi ársins. Heildarútflutningsverðmæti þessara tegunda nam alls 8,38 milljörðum.
Þorskur
Athygli vekur að 8% minna hefur verið flutt út af þorski nú en á sama tíma í fyrra. Þá hefur verð einnig gefið lítillega eftir.
Hlutdeild í heildarmagni sem flutt er út til Frakklands, Bretlands og Belgíu minnkaði milli ára, fór úr 85% niður í 73%. Þar vegur mest um þriðjungs minnkun til Frakklands og rúmlega fimmtungi minna af ferskum þorski var flutt til Bretlands.
Útflutningsverðmæti fersks þorsks á fyrstu 4 mánuðum ársins nam 6,08 milljörðum, sama tímabil í fyrra skilaði hins vegar 6,61 milljarði.
Ýsa
Eins og í þorskinum minnkar útflutt magn ferskrar ýsu milli ára eða um 9%. Þar hefur hins vegar tekist að halda stöðugu verði. Þó nokkur samdráttur hafi verið í útflutningi til Bandaríkjanna kaupa þeir þó enn mest, skammt þar á eftir eru Bretar en þar var magnminnkun óveruleg. Hins vegar jókst útflutningur til Belgíu um 15%, en þeir eru næstir fyrrnefndum þjóðum í kaupum héðan á ferskri ýsu.
Fersk ýsa skilaði 1,5 milljarði í útflutningsverðmæti á fyrstu 4 mánuðum ársins á móti 1,65 milljörðum á sama tíma í fyrra .
Unnið upp úr gögnum frá Hagstofu Íslands