Landssamband smábátaeigenda lýsir yfir miklum áhyggjum vegna þeirrar fyrirætlunar að lækka fjárframlög til Landhelgisgæslunnar. Gangi hún eftir mun öryggi sjómanna skerðast.
LS skorar á alþingismenn að tryggja nægt fjármagn til reksturs Landhelgisgæslunnar þannig að trygg verði sú þjónusta sem henni er lögskipað að sinna. Þyrluþjónusta er öryggisþáttur sem ávallt verður að vera vel sinnt og ekki má undir neinum kringumstæðum draga úr.
Landssamband smábátaeigenda ítrekar fyrri samþykktir sínar á nauðsyn þess að ræða við nágrannaþjóðir okkar um hvort hugsanlegt væri að einhver þeirra eða allar gætu ásamt Íslendingum komið að rekstri þyrlna við Norður-Atlantshaf. Ljóst er að nokkrar þjóðir hefðu þar beina hagsmuni, eins og Færeyingar, Norðmenn, Danir og Grænlendingar.
Í framtíðinni gæti þetta samstarf ef af yrði jafnvel leitt af sér stofnun sameiginlegrar björgunarmiðstöðvar við N-Atlantshaf með aðsetur hér á landi.