Óvissuástand í kjölfar afsagnar fjármála- og efnahagsráðherra riðlaði fyrirfram ákveðinni dagskrá matvælaráðherra og varð þess valdandi að hún komst ekki á aðalfund Landssambands smábátaeigenda. Ræða Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra var þess í þess í stað flutt af aðstoðarmanni ráðherra Kári Gautason.
Nokkrar tilvitnanir úr ræðu ráðherra.
„Sem lið í þessari vinnu lét ráðuneyti mitt framkvæma stærstu viðhorfskönnun meðal almennings á sjávarútvegi sem gerð hefur verið. Niðurstöður þeirrar könnunar eru geysilega áhugaverðar og væri hægt að ræða hér í allan dag. En þar kemur fram að almenningur stendur með strandveiðum, en jafnframt ekki einróma um hvert markmið þeirra eigi að vera, þó að flestir séu á því að þær eigi að veita sanngjarnan aðgang að fiskveiðum og að byggðasjónarmið vegi þungt.
„Mörg hundruð aðilar stunda strandveiðar á hverju ári og landa afla sínum allt í kringum landið. Talsverð nýliðun hefur orðið á þessum árum og því óhætt að segja að markmiðin með strandveiðunum hafa náð fram að ganga að mörgu leyti. Það er því mikilvægt að halda áfram að þróa og treysta strandveiðar og festa þær frekar í sessi svo sem með því að lögfesta skýr markmið og hvernig árangur strandveiða er metinn.
„En lög eru mannanna verk og því tel ég mikilvægt að við drögum lærdóm af reynslunni. Það er ekki gott fyrir framtíð strandveiða að þær verði í óbreyttri mynd enn annað sumar.
„Það er ekki síður ásetningur minn að skapa skilyrði fyrir því að markmið laga um stjórn fiskveiða náist, að efla atvinnu og byggð í landinu. Strandveiðar skipta þar máli og því mikilvægt að standa áfram vörð um þær. Að því mun ég huga í heildarlögum um sjávarútveg sem lagt verður fram í vetur. Ég hef staðið með strandveiðum og hyggst gera það áfram.