Ráðherra loki tafarlaust á flutning þorsks úr krókaaflamarkskerfinu

Frá því í desember 2014 hefur verið heimilt að flytja þorsk úr krókaaflamarkskerfinu yfir í aflamarkskerfið.  Skilyrði fyrir slíkum flutningi er að jafnmörg tonn af ýsu í þorskígildum talið skili sér til baka í krókaaflamarkið.
Á síðasta fiskveiðiári fór þessi flutningur úr hófi sem leiddi til þess að 343 tonn af ýsu voru óveidd í lok fiskveiðiársins.  LS brást við þessu með bréfi til ráðherra þar sem óskað var eftir að hann mundi fella heimildarákvæðið brott úr reglugerð.  Meðal annars var bent á að á sínum tíma – árið 2014 – hefðu aðstæður verið þannig að allt var krökkt af ýsu á veiðislóð smábáta en leiguverð á ýsu ekki í neinu samræmi við verð á mörkuðum.  
Tillögur LS til að komast út úr þeim vandræðunum sem steðjuðu að í upphafi fiskveiðiársins 2014/215 voru að óska eftir ýsukvótinn yrði aukinn um 5.000 tonn, skila til baka 1.000 tonnum inn í línuívilnun og að auka línuívilnun úr 20% í 30% og hún mundi gilda fyrir alla dagróðrabáta. 
 
Ráðherra féllst ekki á kröfur LS þó þær væru afar vel rökstuddar.  Í stað þess fór hann þess á leit við aðalfund LS að taka afstöðu til hugmynda um að heimila flutning á þorski úr krókaaflamarkskerfinu í skiptum fyrir ýsu úr aflamarki.  Aðalfundur hafnaði hugmyndinni, enda ein megin stoð fyrir tilvist krókaaflamarks að óheimilt sé að breyta veiðiheimildum þess í aflamark.    
Ráðherra var hins vegar annarrar skoðunar og undirritaði reglugerð þann 4. desember 2014 þar sem hann hratt hugmynd sinni í framkvæmd.  
Á þeim fjórum fiskveiðiárum sem umrædd heimild hefur verið í gildi hafa 6.720 tonn af þorski verið færð úr krókaaflamarki í skiptum fyrir 5.943 tonn af ýsu.  Því verður ekki á móti mælt að breytingin kom sér vel fyrstu þrjú árin og skapaði aðilum möguleika á að fullnýta veiðiheimildir í þorski sökum mikils meðafla af ýsu við þær veiðar í umhverfi þar sem skortur var á ýsu á leigu.  LS gagnrýndi Hafrannsóknastofnun fyrir að leggja til of lítinn heildarafla, ráðgjöfin væri ekki í neinu samræmi við ýsugengd á grunnslóð.  Naumt skammtaður heildarafli í ýsu gerði það einnig að verkum að leiguverð var ofar skýjum og ekki í neinum takti við verð á mörkuðum.  Tímabilið 1. september – 31. desember 2014 var leiguverð fyrir ýsu 312 kr/kg þegar fiskmarkaðir skiluðu 352 kr/kg af óslægðri línuveiddri ýsu.  Til hliðsjónar var þorskur leigður á 231 kr/kg þegar verð á mörkuðum var 356 kr/kg.  
Á fiskveiðiárinu var einnig óvenjumikill mismunur á leyfilegum heildarafla í þorski og ýsu 216 þúsund tonn í þorski á móti 30.400 tonnum af ýsu eða rúmlega sjöfalt meira af þorski.  
Síðasta fiskveiðiár gaf til kynna að hlutirnir voru að breytast.  Eins og að framan er getið brunnu þá inni í krókaaflamarkinu 343 tonn.  Í kjölfarið óskaði LS eftir því við sjávarútvegsráðherra 24. október sl. að hann mundi tafarlaust afnema ákvæði sem heimilaði flutning þorsks í skiptum fyrir ýsu.  Beiðnin var ítrekuð í desember og nú aftur í janúar.   
Þann 28. desember var leiguverð í krókaaflamarki á ýsu 27 kr/kg, en í þorski 150 kr/kg.  Ígildastuðull ýsu er hins vegar aðeins 1,05.  Með öðrum orðum að fyrir 100 tonn af ýsu þarf að láta frá sér 105 tonn af þorski.  Verðmætin í leiguviðskiptum eru hins vegar ólík.  Fyrir þorskinn þarf að greiða 15,8 milljónir en fyrir ýsuna 2,7 milljónir.  Mismunurinn  sexfaldur en ekki jafnt eins og grundvöllur skiptana var gerður á.
Það sem af er fiskveiðiárinu hafa alls 1.207 tonn af þorski verið flutt úr krókaaflmarki yfir í aflamarkskerfið.
Þó það væri ekki önnur ástæða en þessi sem gæfi ráðherra merki um að verða tafarlaust við kröfu LS væri það nægt tilefni.  Aðrir þættir eru að nú er útilokað að fá þorsk leigðan í krókaaflamarki, þar sem þeir sem hyggjast leigja frá sér reikna með hærra verði með minnkandi framboði.  Ennfremur má gera ráð fyrir að hundruð tonna af ýsu brenni inni annað árið í röð og tjón vegna þessa í afla- og útflutningsverðmæti því umtalsvert.  
Hér með skorar LS á Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að bregðast strax við beiðni Landssambandsins og afnema heimild til flutnings á þorski úr krókaaflamarks- yfir í aflamarkskerfið.  
logo_LS20 á vef 2.jpg