Ráðherra segir nei við beiðni LS um aukningu í ýsu

Í dag barst LS bréf frá Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegsráðherra.  Þar svarar ráðherra erindi LS frá 11. febrúar um að Hafrannsóknastofnun endurskoði veiðiráðgjöf í ýsu fyrir yfirstandandi fiskveiðiár.  Sérstaklega yrði þar litið til niðurstaðna úr haustralli stofnunarinnar.
Ráðherra hafnaði erindi Landssambands smábátaeigenda og styður ákvörðun sína við álit Hafrannsóknastofnunar um að stofnunin telji 
„ekki fiskifræðilegar forsendur til að breyta ráðgjöf um ýsu á þessu stigi.
Ákvörðun ráðherra veldur LS gríðarlegum vonbrigðum þar sem á grundvelli ástandsins á miðunum og niðurstöðu haustrallsins er fullt tilefni til endurskoðunar.  
Þrátt fyrir að málið líti nú útfyrir að vera komið að endimörkum mun LS áfram leita leiða til að sannfæra yfirvöld um að auka við ýsukvótann og létta af því gríðarlega óhagræði sem nú ríkir við þorskveiðar línubáta.  
Í bréfi Hafrannsóknastofnunar til ráðherra er m.a. vitnað til fundar sem forsvarsmenn LS áttu með sérfræðingum stofnunarinnar 5. febrúar sl. 
„Þar kom m.a. fram að fréttir af mikilli ýsugengd á vissum veiðisvæðum smábáta er hvorki í ósamræmi við ráðgjöf stofnunarinnar fyrir yfirstandandi fiskveiðiár né við stofnmælingu botnfiska að hausti.  Engu að síður fara samtökin fram á við ráðuneytið að það hlutist til um að Hafrannsóknastofnun endurskoði ráðgjöf sína frá júní s.l. um ýsuveiðar, segir í bréfi Hafró.
Vegna þessara orða vill LS árétta kröfur sínar um endurskoðun, félagið kvikar í engu frá henni og telur hana eiga við full rök að styðjast.  Landssamband smábátaeigenda telur það skyldu ráðherra og stofnunarinnar að leita allra leiða til að rétta af það misvægi sem er í þorskveiðum á grunnslóð og telur miður að enn skuli Hafrannsóknastofnun skella skollaeyrum við að bregðast við óhemju magni ýsu á grunnslóð.  LS telur það vott um ótímabæra snilligáfu sérfræðinga stofnunarinnar að halda því fram að:
„að fréttir af mikilli ýsugengd á vissum veiðisvæðum smábáta er hvorki í ósamræmi við ráðgjöf stofnunarinnar fyrir yfirstandandi fiskveiðiár né við stofnmælingu botnfiska að hausti 
Bréf LS
Bréf ráðherra
IMG_20140324_0001.jpg

Bréf Hafrannsóknastofnunar
IMG_20140324_0002.jpg 
Graf frá Hafró sem sýnir mismun á vor- og haustralli 2013
IMG_20140324_0003.jpg