LS hefur sent Svandísi Svavarsdóttur metvælaráðherra bréf þar sem óskað er eftir að hún beiti sér fyrir breytingu á lögum um stjórn fiskveiða til að hægt verði að bjóða þá loðnu sem Norðmenn náðu ekki að veiða, í skiptum fyrir þorsk á tilboðsmarkaði Fiskistofu. Gangi það eftir er það mat LS að magnið nægi til að draga til baka skerðingu á heimildum til strandveiða. Hér er því um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir útgerð strandveiðibáta, en fjöldi sem stundaði veiðarnar á sl. sumri var 672.
Erindið er tilkomið vegna neitunar ráðherra við beiðni LS sem grundvallaðist á að lög heimiluðu ekki að eftirstöðvar af veiðiheimildum Norðmanna færu allar á skiptimarkað. Lög kvæðu á um að aflinn myndi dreifast á þau skip sem hafa hlutdeild í loðnu að frádregnum 5,3% sem fara til skipta á tilboðsmarkaði Fiskistofu.
Í svarbréfi ráðherra til LS kom fram að ekki lægi fyrir að svo stöddu hversu mikið magn væri um að ræða.