Fjölmargir þættir hafa gert það að verkum að enn á eftir er að veiða rúm 60% af heimiliðum loðnukvóta. Meðal þeirra er að veiðarnar byrjuðu fyrir norðan land í haugabrælu, þar reyndist erfitt að nota „grunnnótina, hvalur olli því vandræðum og lítið veiddist í trollið, þá voru nokkur afkastamikil skip upptekin við kolmunnaveiðar við Færeyjar og hófu því veiðar eftir að vertíð var hafin.
Afli íslenskra skipa er kominn í 150 þús. tonn samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu, afli norskra skipa 40 þús. tonn, grænlenskra 17 þús. og færeyskra 2,7 þús. tonn.
Alls eru 22 skip íslensk skip komin með afla en aflahlutdeild skiptist á 20 skip.
Heildarveiðiheimildir eru 390 þús. tonn eða um 20 þús. tonn að meðaltali á hvert skip. Sjö skip eru yfir meðaltalinu með alls 46% veiðiheimildanna.
Mestar heimildir hefur Vilhelm Þorsteinsson EA, 35 þús. tonn. Í dag var hann kominn með mestan afla 14.500 tonn. Ásamt Vilhelm hafa Heimaey VE, Ingunn AK, Aðalsteinn Jónsson SU og Börkur NK veitt meira en 10 þús. tonn.
Loðnan er nú á hraðri ferð með suðurströndinni og eru skipin að veiðum rétt vestan við Vestmannaeyjar.
Hegðun loðnunnar nú er með nokkrum öðrum hætti en undanfarin ár. Loðnan var dreifð og mældist á gríðarstóru svæði, frá Vestfjörðum og fyrir Norðurlandi. Það vakti þó athygli að engin loðna mældist útifyrir Austurlandi.
Kvótinn var ákveðinn á grundvelli endurtekinna mælinga rs Árna Friðrikssonar dagana 17. – 29. janúar. „Mest mældist út af Vestfjörðum og vestanverðu Norðurlandi að Kolbeinseyjarhrygg, eins og segir í fréttatilkynningu Hafró af leiðangrinum.
Á grundvelli þessa reiknaði Hafrannsóknastofnun stærð veiðistofnsins 969 þús. tonn og ráðlagði að leyfilegur hámarksafli yrði 580 þús. tonn. Þetta voru ánægjulegar fréttir þar sem mælingar í september og október gáfu ekki tilefni til að veiða meira en 260 þús. tonn.
Hvað varð um loðnuna fyrir norðan?
Eins og áður sagði hófust veiðar fyrir norðan land. Fljótlega færðust þær þó á hefðbundna slóð, loðnan kom upp að SA landi og hefur færst vestureftir suðurströndinni. Vegna þessa er ekki að undra að þeirri spurningu sé velt upp:
Hvað varð um loðnuna sem mælingar á stærstum hluta stofnstærðarinnar, 969 þús. tonn, er byggð á?