Smábátaeigendur og fiskmarkaðir
Sala á fiskmörkuðum njóti ívilnunar
Er yfirskrift greinar eftir Örn Pálsson sem birtist í Fiskifréttum í dag 28. janúar.
Enginn velkist í vafa um að einn þeirra þátta sem gert hafa smábátaútgerð hér á landi
svo sterka sem raun ber vitni er tilvera uppboðsmarkaða með fisk. Fiskmarkaðirnir eru nálægt Landssambandi smábátaeigenda í aldri, réttra 30 ára.
Það var trillukörlum gríðarleg lyftistöng þegar þeir hófu starfsemi sína. Fyrst í stað voru ekki allir sannfærðir, en eftir að smábátaeigendur höfðu átt viðskipti við þá um árabil og alltaf fengið greitt vikulega fyrir seldan afla voru menn ekki í nokkrum vafa um ágæti þeirra.
Gagnrýni á fiskmarkaðina
Gagnrýni hefur reglulega komið fram um of háa þóknanir og að verðsveiflur séu of miklar. Hvort tveggja á við rök að styðjast. Fiskmarkaðir hafa brugðist við hinu fyrrnefnda, þar sem fyrir réttu ári var söluprósenta lækkuð. Að vísu mótmæltu fiskkaupendur og bentu á að lækkuninni hefði verið velt yfir á þá.
Hinu síðarnefnda eiga fiskmarkaðir hins vegar erfitt með að bregðast við. Uppboðin eru ávallt framkvæmd með sama hætti og markaðurinn hverju sinni ræður verðinu.
Því er ekki að neita að flestir bjuggust við í upphafi þessa fiskveiðiárs að verð nú mundi vart verða undir 300 kr/kg fyrir þorsk og ýsu. Það hefur að mestu leyti gengið eftir með þorskinn, en ýsan hefur gefið eftir og ekki staðið undir þeim væntingum sem gerðar voru.
Það sem af er fiskveiðiárinu er meðalverð á fiskmörkuðum á óslægðum þorski 306 kr/kg (10.670 tonn) og ýsan hefur skilað 271 kr/kg (4.973 tonn). Til samanburðar var verðið á sama tíma í fyrra 329 kr/kg (8.995 tonn) á þorski og 335 kr/kg á ýsunni (3.585 tonn). Verðlækkunin er umtalsverð í ýsu eða 19%, en þorskurinn hefur lækkað um 7%.
Þegar þessar tölur eru skoðaðar nánar er áhugaverð sú staðreynd að framboð í þorski hefur aukist um 18,6% og ýsu um 39%. Það virðist því vera svo að markaðurinn sé að nokkru leyti fær um að mæta magnaukningunni, því miður ekki nema með því að gefa eftir í verði.
Ályktun aðalfundar LS
Á aðalfundi LS 2015 voru málefni fiskmarkaða mikið til umræðu. Fundarmenn höfðu af því áhyggjur að bein viðskipti með fisk væru að aukast sem leiddi af sér minna framboð á uppboði fiskmarkaðanna. Af þessu tilefni samþykkti fundurinn eftirfarandi:
„Aðalfundur LS telur brýnt að tryggð verði virkariverðmyndun á fiski m.a. með því að tryggja meðreglum aukið framboð afla á skipulögðumuppboðsmörkuðum.
Ályktunin hefur verið kynnt stjórnvöldum, fiskmörkuðum og sjómannasamtökunum. Þá hefur hún verið í umræðunni meðal smábátaeigenda. Viðbrögð hafa almennt verið góð. Nauðsynlegt væri að hafa öfluga fiskmarkaði sem mundu þannig stuðla að meiri samkeppni og frjálsari verðmyndun.
Leiðir til úrbóta
Vegna þessara undirtekta hefur þótt sjálfsagt að taka málið lengra og útfæra nánar. Þar hafa einkum tvær leiðir verið ræddar:
a. Kvótaívilnun
b. Afsláttur af veiðigjaldi
Með kvótaívilnun er átt við að þeim sem selja afla á fiskmörkuðum yrði ívilnað með auknum veiðiheimildum. Þannig mundu fiskmarkaðir eflast og einstaklingsútgerðir styrkjast, einkum þær sem ekki hefðu vinnslu á bakvið sig. Það mundi falla vel að stefnu stjórnvalda að sporna við þeirri samþjöppun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og ekkert lát virðist á.
Afsláttur af veiðigjaldi væri einnig nokkuð sem vert væri að skoða, þar sem þau leggjast einkar hart á útgerðir sem eru án vinnslu sem ætla má að séu stærstu viðskiptavinir markaðanna. Eins og með kvótaívilnun mundi það styrkja einstaklingsútgerðir og draga úr samþjöppun.
Höfundur er framkvæmdastjóri
Landssambands smábátaeigenda.