Samstaða okkar sterkasta vopn

              
Aðalfundur Stranda var haldinn Hólmavík 24. september sl.  Eins og á fyrri fundum svæðisfélaga LS voru veiðigjöldin fyrirferðamikil í umræðunni.  Fundarmenn voru ánægðir með það sem LS hafði gert til að vekja athygli á þeirri gríðarlegu hækkun sem skall á 1. september sl.
Ennfremur að vinnuhópur væri að störfum í sjávarútvegsráðuneytinu sem ætlað væri að greina þann vanda sem upp væri kominn hjá litlum og meðalstórum útgerðum. 
Með hinni miklu hækkun veiðigjalds væri enn meira aðkallandi að velta fyrir sér fiskverðinu áður en ákveðið væri að fara í róður.  Hjá þeim sem eru á leigukvóta bætast 18,40 krónur við leiguna í þorski, þegar tekið hefur verið tillit til afsláttar.  Það væri því eins gott að vel veiðist á línuna í hverri veiðiferð, fiskurinn að réttri stærð og að hátt verð fáist fyrir aflann.
Makríll Straumur smá.jpgGóður rómur var gerður að ályktun stjórnar LS um breytingar á veiðigjaldinu.  Þrepaskipting gjaldsins mundi skila smæstu útgerðunum ávinningi, jafna þann mismun sem orðinn er á afkomu einstakra útgerðarflokka og hægja á samþjöppun.   
Þrepaskiptingin felur í sér að þeir sem hafa 50 þorskígildi og minna greiða fjórðung af álögðu veiðigjaldi, hlutdeild í fullu gjaldi mundi svo hækka með auknum veiðiheimildum og þau fyrirtæki sem mestar hefðu mundu greiða álag á fullt veiðigjald.
Skorað var á smábátaeigendur að taka undir tillöguna og koma henni í umræðuna í kosningabaráttunni sem nú er hafin.  
Á aðalfundi Stranda var vikið að þeim vanda sem skapast þegar smábátaeigendur kjósa að vera ekki allir innan LS.  Fundarmenn voru sammála um að styrkur til að koma málum í höfn dvíni við slíkt og því afar áríðandi að hvetja alla smábátaeigendur að flykkja sér í kringum Landssamband smábátaeigenda.  Samstaðan væri sterkasta vopn smábátaeigenda gegn þeim ójöfnuði sem útgerð smærri báta glímir nú við.
18121709_10210258779639054_5705318313381622335_o (1).jpg
Aðalfundur Stranda samþykkti að senda eftirtaldar ályktanir inn á aðalfund LS:
1.   Aðalfundur Stranda gerir kröfu um að makrílveiðar á króka verði gefnar frjálsar og    
      hafnar kvótasetningu á makríl.
2.   Aðalfundur Stranda mótmælir harðlega reglugerðarlokunum veiðisvæða og krefst 
      þess að lokanir standi aldrei lengur en sex mánuði.
3.   Aðalfundur Stranda krefst þess að sjávarútvegsráðherra nemi úr gildi reglugerð nr. 
      970 frá 13. desember 2010 um bann við línuveiðum á Húnaflóa.
Greinargerð: Reglugerðin tekur yfir mjög stórt veiðisvæði í vestanverðum Húnaflóa, sem  er mikilvæg veiðislóð fyrir smábáta við flóann.   Reglugerðarlokunin er því mjög íþyngjandi fyrir útgerðir við Húnaflóa. 
4.   Aðalfundur Stranda mótmælir harðlega hækkun veiðigjalda enda úr öllum takti við 
      afkomu smábátaútgerðar á þessu ári.
5.   Aðalfundur Stranda skorar á Samgöngustofu að fylgja fast eftir að nöfn báta séu rétt 
      skráð í AIS kerfi.
6.   Aðalfundur Stranda mótmælir háum skoðunargjöldum og mjög íþyngjandi álögum 
      ríkis og sveitarfélaga.  Upphæð gjaldanna er komin yfir þolmörk.  Skorað er á 
      viðkomandi að endurskoða gjaldskrána þar sem tekið verði mið af erfiðleikum þessa 
      útgerðarhóps í kjölfar lágs fiskverðs og margföldunar á veiðigjaldi.
7.   Aðalfundur Stranda leggur til að stjórnun grásleppuveiða verði með svipuðum hætti 
      og verið hefur.
8.   Aðalfundur Stranda leggur til að hert verði á reglum sem gilda um eignarhald á 
      strandveiðibátum.  Fundurinn lýsir stuðningi við starf forystumanna LS er viðkemur 
      strandveiðum samtímis sem hvatt er til áframhaldandi baráttu fyrir auknum veiðirétti.