SFÚ vill auka vægi strandveiða

 
 
Stjórn Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) hefur sent frá sér ályktun um framkomið frumvarp til laga um sjávarútveg.  
SFÚ mótmælir frumvarpinu, þá sérstaklega hugmyndum um rýmkun hámarksaflahlutdeildar félaga á markaði í 15%.  „Þá er staðreyndin áfram sú, nái frumvarpið fram að ganga, að 6-10 fyrirtækjasamstæður geti haldið á öllum veiðiheimildum þjóðarinnar og jafnvel haft óljós eignatengsl sín á milli, eins og segir í ályktun stjórnarinnar.  
 
Strandveiðar verði efldar

SFÚ hvetur til þess að strandveiðar verði efldar, hlutdeild þeirra aukin og tryggt verð jafnvægi milli svæða.  Verði það niðurstaða Alþingis að afleggja almenna byggðakvótann þá eigi skilyrðislaust að verja þeim hluta beint til strandveiða.  
„Þar hefur mesta nýliðunin orðið, auk jákvæðra áhrifa sem þær hafa haft á byggðir landsins.
„SFÚ telur eðlilegt að strandveiðar hefjist að loknu hrygningarstoppi um miðjan apríl og standi til loka september. Jafnframt ber að tryggja öllum strandveiðisjómönnum jafnt aðgengi, með fyrirfram ákveðnum dagafjölda í stað heildar úthlutunar á strandveiðiflotann. Auk þess verði skylt að landa strandveiðiafla á markaði til að tryggja sjálfstæði strandveiðisjómanna sem best. 
Það er skoðun SFÚ að verði þessi tilhögun um strandveiðar lögfest, hefðu stjórnvöld svarað áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2007 um atvinnufrelsi.