Síldveiðar – atvinnumál í Stykkishólmi

Símon Sturluson, fyrrverandi stjórnarmaður í Landssambandi smábátaeigenda og núverandi skeldýraræktandi og síldveiðimaður, sendi heimasíðunni grein um síldveiðar í Breiðafirði.  Þar fjallar Símon um mikilvægi veiðanna fyrir atvinnulíf í Hólminum og skorar á ráðamenn að beita sér fyrir auknum kvóta þannig að veiðarnar stöðvist ekki.
Atvinnumál í Stykkishólmi.

Núna er að byrja fimmta árið sem að síld sýnir sig í einhverjum mæli á grunnslóð við Stykkishólm. Fyrst í stað voru það eingöngu stóru síldarskipin sem höfðu leyfi til að veiða þessa síld og öðrum var það bannað þótt Kiddó og Baldur Ragnars stælust  með eitt lagnet sem þeir veiddu  nokkrar síldar í sem þeir gáfu svo á bryggjunni.  Þessar stórtæku kolólöglegu veiðar þeirra  voru stöðvaðar af yfirvöldum enda höfðu þeir félagar ekki síldarkvóta til veiðanna.  Það var svo í ráðherratíð Jóns Bjarnasonar að tekin voru til hliðar 500 tonn  til veiða í lagnet og voru veidd 200 tonn af þeim heimildum í fyrra.
Símon 100_4498.jpg
Á þessari vertíð er mikill áhugi á þessum veiðum og hafa yfir 40 smábátar fengið síldarkvóta.  Í Stykkishólmi hefur Agustsson fjárfest í tækjabúnaði til að vinna þessa síld og hafa  25 bátar landað um 380 tonnum í Stykkishólmshöfn.  Það hafa um 40 manns í Stykkishólmi haft atvinnu við vinnslu á silfri hafsins og var vonast til að svo yrði áfram fram í mars þegar síldin fer aftur.  
Núna eru þær síldarheimildir sem atvinnu og nýsköpunarráðherran ákvað að úthluta búnar og virðist hann ófáanlegur til að bæta við pottinn.   Ljóst er því að þeir sem hafa haft atvinnu af þessu þurfa að finna sér aðra vinnu eða fara á bætur.
  
Einu rökin sem ég hef heyrt gegn því að meiri síldarheimildum verði úthlutað til netaveiða eru að LÍÚ séu á móti því, þeir eiga kvótann og svo hafa smábátarnir kannski verið fyrir þeim við veiðarnar.  Það er svoldið sérstakt að útgerðir hinum megin á landinu eigi síldina sem syndir hér á milli skerja,  svona keimlíkt því að Evrópusambandið eigi makrílinn sem syndir hér við land.
Það er sjálfsögð krafa okkar Hólmara til Steingríms J. Sigfússonar atvinnumála- og nýsköpunarráðherra að heimila áframhaldandi veiðar smábáta og þar með nýtingu þessa  flökkustofns hér við bæjardyrnar.   Með veiðunum hefur tekist að skapa tugi starfa sem við eigum að berjast fyrir að halda.  Verðmætin eru og gríðarleg fyrir samfélag okkar, auk þess sem smábátar einir skipa greiða leigu til ríkisins fyrir hvert kíló sem þeir veiða.
Ég treysti á þingmenn kjördæmisins að láta til sín taka í þessu máli og þá ekki síst vinstri – grænum hér í Hólminum að upplýsa ráðherra sinn um alvöru málsins.
Símon Sturluson