Við upphaf aðalfundar LS ávarpaði Jón Bjarnason sjávarúvegs- og landbúnðarráðherra fundinn. Hér á eftir eru nokkur atriði úr ræðunni:
„Þær breytingar sem þegar hafa áunnist í stjórn fiskveiða eru ekki litlar og snerta margar hinar smærri útgerðir, líf lítilla útgerðarstaða og snúa að hinni samfélagslegu ábyrgð sem okkur er nauðsynlegt að horfa til í þeim atvinnuvegi sem þyngst vegur.
Hér ber strandveiðina vitaskuld hæst en með henni hefur verið komið til móts við sjónarmið um frelsi og mannréttindi allra til að stunda útgerð innan þeirra marka sem mögulegt er. Aukning í strandveiðinni hefur gefið landsbyggðinni líf og það segir sína sögu að löndunarstaðir strandveiðibáta í landinu voru yfir 60 á liðnu sumri.
———————
„Sama gildir um hið samfélagslega og hinni samfélagslegu ábyrgð fylgir byrði en einnig öryggi. Það er öryggi þess sem hefur jarðsamband, í sinni byggð, í sínu fólki, í sínu hlutverki. Kreppan sem nú ríður yfir heimsbyggðina færir okkur ekki bara heim sanninn um hverfulleika markaðshyggjunnar, heldur einnig að án jarðsambands er okkur og verkum okkar fyrst hætta búin.
Sá mikli veraldarmaður Sölvi Helgason gat með sexkanti reiknað mislita tvíbura í konu í annarri sókn og taldi það til afreka. Geimvísindi verðbréfanna sem engar skyldur höfðu gátu með sama hætti reiknað okkur allar heimsins snekkjur og lystisemdir til handa þjóð sem átti að verða sú ríkasta í heimi um aldir alda en skildi þó ekki annað eftir en hrundar skýjaborgir og ógreidda víxla.
———————
„Þegar litið er til baka í þróun smábátaveiða sést vel að í fjöldamörgum minni sjávarbyggðum hefur það verið eina ráð sjómanna til varnar vegna atvinnumissis að fara yfir í smábátaútgerð og efla þann þátt útgerðar að nýju.
Hvatinn sem var til staðar á árum áður var vissulega sá að ekki þurfti að kaupa kvóta í öllum fisktegundum. Aðeins þorskurinn var kvótabundinn í fyrra kerfi þorskaflahámarksins en aðrar fisktegundir eins og ýsa, steinbítur, karfi voru smábátasjómönnum frjálsar. Þetta frelsi til veiða efldi smábátaútgerðina og kom í veg fyrir fall margra smærri byggða.
Núverandi stjórnarflokkar hafa mætt sömu þörf og komið til móts við hagsmuni hinna smærri byggða með því að styðja að nýju sókn og rekstur smábátaútgerða. Sem kunnugt er höfum við ýtt undir notkun vistvænna veiðarfæra með hærri línuívilnun sem nemur 20% vegna dagróðra þegar unnið er að beitningu í landi og með því að koma á strandveiðikerfi sem byggir einnig á dagróðrum. Síðan hefur markvist verið unnið að því að bæta gæði og aflameðferð.
Opnað hefur verið á aðgang smábáta að veiðum á makríl og skötusel og nú þessa dagana er verið að opna smærri skipum leið til þátttöku í síldveiðum að nýju og þau geta nú fengið beitusíld á betra verði en verið hefur að undanförnu. Þetta stuðlar allt að betri möguleikum til viðhalds og eflingar smærri útgerða sem ég tel að eigi að efla enn frekar.
———————
„Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið mun áfram vinna að að breytingum á stjórnkerfi fiskveiða með það að leiðarljósi að stuðla að vernd fiskistofna, skapa sátt um nýtinguna en jafnframt að efla hagkvæmni og byggðir landsins.
———————
„Það er einlæg von mín að breið sátt náist um breytt stjórnkerfi fiskveiða. Íslenskur sjávarútvegur er undirstaða velferðar þjóðarinnar og lífsbjörg hennar nú sem áður fyrr.