Skorað á Steingrím að sýna kjark

Aðalfundir svæðisfélaganna eru nú haldnir hver á fætur öðrum.  Þriðjudaginn 25. september fundaði Fontur á Þórshöfn.  Fjölmörg málefni voru rædd á fundinum og í kjölfarið voru samþykktar nokkrar ályktanir. 
Ýsan var mikið hitamál á fundinum.  Rifjað var upp að fyrir nokkrum árum var nánast enga ýsu að fá á miðunum við NA horn landsins, þótti fréttnæmt ef hún var í afla bátanna.  Ýsukvóti er því nánast engin á bátum félagsmanna, því kvótinn var ákveðinn út frá aflareynslu sem tók mið af fyrrgreindu tímabili.  

Báta á Þórshöfn 2012.jpg

Síðustu ár hefur ýsa hins vegar flætt yfir svæðið og þekur þar öll mið.  Lengst af var leigumarkaðurinn virkur og gátu bátarnir leigt til sín veiðiheimildir og sigrast þannig á hinni óvæntu stöðu sem upp var komin.  Flestir voru á því að heimsókn ýsunnar á miðin fyrir N og NA-landi yrði ekki viðvarandi og því ekki ástæða til að fjárfesta í varanlegum heimildum.  Þær spár hafa ekki gengið eftir og ýsan nánast án undantekningar hátt hlutfall aflans þegar haldið er í þorskróður.
  

Aðalfundur Fonts 2012.jpg

Síðustu tvö fiskveiðiár hafa einkum verið erfið, þar sem nánast vonlaust hefur verið að fá ýsu leigða á viðunandi verði.   Til að forðast ýsuna hafa sjómenn gripið til ýmissa ráða sem hingað til hafa þótt óbrigðul.  T.d. að stunda í meira mæli handfæraveiðar, þar sem ýsa veiðist ekki á handfæri.   Síðustu fréttir herma hins vegar að það dugi ekki til, því í einum róðri dró viðkomandi 400 kg af ýsu á handfæri!
            
Með minnkandi veiðiheimildum í ýsu nú og nánast lokuðum leigumarkaði er staða félagsmanna Fonts mjög erfið.  Þeir nánast eins og fjölmargar útgerðir á N-landi geta nánast ekki nýtt sér veiðiheimildir sýnar í þorski.   Alltaf ýsa með í aflanum og í flestum tilvikum hefur viðkomandi nánast engar heimildir á móti.  Það er því fátt annað í stöðunni en að leggja bátnum og reyna að þrauka þar til þorskurinn tekur yfir.
Félagsmenn í Fonti gagnrýndu harðlega að Steingrimur J. Sigfússon atvinnu- og nýsköpunarráðherra skyldi nánast blint fara eftir ráðleggingum Hafró um skerðingu á veiðiheimildum á ýsu.  Með miðin kakkfull af ýsu fyrir framan sig – hvers vegna niðurskurður á veiðiheimildum?   Brýnt væri að auka veiðiheimildir nú þegar á grunnslóðinni þannig að hægt væri að stunda eðlilega róðra.
Fundurinn samþykkti eftirfarandi um málefnið:
Aðalfundur Fonts haldinn á Þórshöfn 25. september 2012 skorar á Steingrím J. Sigfússon að sýna þann kjark að auka nú þegar veiðiheimildir í ýsu. 
Formaður Fonts er Einar Sigurðsson Raufarhöfn