Ekkert lát er á viðbrögðum svæðisfélaga LS við ákvörðun sjávarútvegsráðherra að skerða veiðiheimildir á svæði D um 200 tonn. Í ályktun sem stjórn Smábátafélags Reykjavíkur hefur sent frá sér segir m.a.:
„Enn undarlegri er þessi gjörningur í ljósi þess að tvö ár í röð hefur Hafrannsóknastofnun mælt þorskstofninn í hæstu hæðum.
Ályktun Smábátafélags Reykjavíkur
„Stjórn Smábátafélags Reykjavíkur mótmælir harðlega þeim gjörningi sjávarútvegsráðherra að færa aflaheimildir af D svæði strandveiða (sveitarfélagið Hornafjörður – Borgarbyggð).Með þessu er hann að gera trillukörlum á þessu svæði enn erfiðara fyrir, en þekkt er að D svæðið er erfiðast viðureignar til handfæraveiða yfir sumartímann, sérstaklega á vesturhluta þess.Undanfarin ár hefur meðalafli á bát á D svæðinu verið lægri en á hinum þremur. Ástæðan hefur verið fiskleysi og í fyrra óvanalega mikill smáfiskur.Nú, árið 2016, lítur hins vegar mun betur út en frá upphafi strandveiðanna 2009. Þetta er því köld kveðja frá hinum nýja sjávarútvegsráðherra í upphafi starfs hans. Enn undarlegri er þessi gjörningur í ljósi þess að tvö ár í röð hefur Hafrannsóknastofnun mælt þorskstofninn í hæstu hæðum.Stjórn Smábátafélags Reykjavíkur skorar á sjávarútvegsráðherra að draga þessa ákvörðun tafarlaust til baka.Líti út fyrir að eitthvað af aflaheimildum á einhverju svæðanna, hvort heldur það er á D svæði eða einhverju öðru, sé að brenna inni hefur hann í hendi að flytja þær þá á milli svæða.Stjórn Smábátafélags Reykjavíkur vill ítreka stuðning sinn við samþykktir Landssambands smábátaeigenda um að núverandi fyrirkomulagi við strandveiðar verði breytt, þannig að leyft sé að veiða 4 daga í viku, a.m.k. 4 mánuði á ári og heildarpottar verði afnumdir.
Reykjavík 28. apríl 2016
Stjórn Smábátafélag Reykjavíkur.
Þorvaldur Gunnlaugsson formaður
Páll Kristjánsson
Jón Magnússon
Guðmundur Jónsson
Arthur Bogason