Smáforrit til að tilkynna um brottfarir skipa og báta úr höfn til vaktstöðvar siglinga var nýlega tekið í notkun. Það virkar samhliða öðrum aðferðum til að tilkynna brottför úr höfn.
Smáforritið sem er öllum aðgengilegt, heitir ,,Vss App”, í „Play store fyrir Android snjallsíma og ,,VSS Login í „App Store fyrir Apple snjallsíma. Því þarf að hlaða niður í snjallsímann áður en notkun hefst.
Skipstjóri skráir sig inn í forritið með kennitölu sinni, tilgreinir síðan skip og fjölda samtals um borð og skráir skip sitt úr höfn en við það sendir forritið brottfarartilkynningu til vaktstöðvarinnar. Á meðfylgjandi myndum má sjá skjámyndir af forritinu. Forritið lætur vita ef tilkynning skilar sér ekki til vaktstöðvarinnar t.d. ef síminn er utan þjónustusvæðis.
Ef ferilvöktunarbúnaður viðkomandi skips er óvirkur þegar það er tilkynnt úr höfn með þessum hætti, þá fær skipstjóri ábendingu frá forritinu um að hafa samband við vaktstöð siglinga. Þar er jafnframt áfram almenn vöktun á því að skip sem lætur úr höfn hafi tilkynnt brottför.
Skipstjórar eru hvattir til að taka snjallforritið í notkun við fyrsta tækifæri.
Rétt er að benda á að ávallt skal gæta þess að talstöð sé í lagi og að hún sé stillt á rás 16.
Hér að neðan eru skjámyndir af forritinu.