Snæfell fundar með ráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimsótti Stykkishólm fyrr í dag.   Stjórn Snæfells – félags smábátaeigenda á Snæfellsnesi – tók á móti ráðherra í fiskverkunarhúsi Valentínusar Guðnasonar.   Að lokinni kynningu á harðfiskverkuninni með tilheyrandi veitingum fundaði ráðherra með stjórninni.



Að sögn Sigurjóns Hilmarssonar formanns Snæfells átti stjórnin góðan fund með ráðherra þar sem komið var inn ýmis málefni sem brenna á trillukörlum.  Meðal þeirra voru:  Síld- og makrílveiðar,  strandveiðar, byggðakvóti, grásleppuveiðar og línuívilnun.  


Öll málin voru rædd ítarlega og sýndi ráðherra sjónarmiðum stjórnarinnar mikinn skilning. 



Að loknum fundi var farið niður á höfn þar sem síldarsjómenn, „prestarnir Álfgeir og Páll, sýndu ráðherra báta sína og útbúnað sem notaður er við síldveiðar.



Heimsókn ráðherra lauk með því að taka hús á AGUSTSON sem kaupir síld og makríl af smábátum til vinnslu og útflutnings sem hágæða vöru.  Við markaðssetningu er lögð áhersla á að veiðarnar eru stundaðar af smábátum með einn eða tvo menn í áhöfn.  


Í kynningu Ellerts Kristinssonar framkvæmdastjóra og Magnúsar Bæringssonar vinnslustjóra kom fram hversu mikilvægar þessar veiðar væru fyrirtækinu, sjómönnum og byggðalaginu í heild.  


Í lokin bauð fyrirtækið viðstöddum að þiggja veitingar þar sem síld, makríll, áll og fleira fiskmeti var í aðalhlutverki.



Aðspurður sagðist Sigurjón vera afar ánægður með heimsókn ráðherra og var viss um að hann hefði farið vel nestaður frá þeim Snæfellingum.