Í gær, 7. mars, var undirritaður í Bjarnarhöfn samningur um tveggja ára undirbúningsferli að stofnun svæðisgarðs á Snæfellsnesi. Snæfell – félag smábátaeigenda á Snæfellsnesi – er meðal þátttakanda í verkefninu og er Bárður Guðmundsson fulltrúi félagsins í stjórn.
Gríðarleg undirbúningsvinna hefur farið fram sem sýndi svo ekki er um villst að Snæfellsnes hefur alla burði til að hýsa svæðisgarð.
Samningurinn tryggir áframhaldandi vinnu að stofnun hans sem mun verða mikil lyftistöng fyrir byggðarlagið. Markmiðið með stofnun garðsins er að efla samfélagið á Snæfellsnesi enn frekar, vinna sameiginlega að því að bæta lífsgæði og lífsjör og auðga upplifun og vellíðan íbúa og gesta.
Því ber að fagna að trillukarlar á Snæfellsnesi skuli vera beinir aðilar að verkefni sem þessu.