Stjórnlaus umbreyting veiðiheimilda



Stjórnlaus umbreyting veiðiheimilda
Makríll notaður til verksins
Að lokinni mikilli orrahríð á Alþingi í maí og júní sl. urðu nokkur stórmál að lögum á skömmum tíma.  Lög nr. 46 um breytingu á lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og lögum um stjórn fiskveiða (stjórn veiða á makríl), voru þar á meðal.  Lögin kveða á um að Fiskistofa skuli úthluta öllum skipum sem hafi veitt makríl á tímabilinu 2008 – 2018 aflahlutdeild. 
 
Aðdragandi laganna var frumvarp sjávarútvegsráðherra.  Í því var gert ráð fyrir að aflaheimildir smábáta (bátar sem nota færi við veiðar á makríl) yrðu verulega skertar.  T.d. gerði frumvarpið ekki ráð fyrir að heimildir til viðbótar við aflamark smábáta – 2.000 tonn yrðu áfram hluti af veiðiheimildum þeirra.  Þeim átti að úthluta til uppsjávarflotans, auk þess sem hluti af aflaheimildum annarra smábáta mundi færast þangað.
Atvinnuveganefnd Alþingis var þessu ekki sammála og breytti frumvarpinu á þá leið að áður en makrílheimildum á grundvelli hlutdeildar yrði úthlutað væru dregin frá 4.000 tonn sem kæmu til viðbótar við aflaheimildir smábáta.  Með breytingunni var tryggt að áfram yrði til öflugur floti smábáta til veiða á makríl á grunnslóð, þar sem stærri skipum eru óheimilar veiðar. 
Ennfremur ákvað atvinnuveganefnd að leggja til við Alþingi að makrílheimildum yrði skipt upp í tvo útgerðarflokka – A-flokk uppsjávarskip og B-flokk smábátar.  Í ákvæði þar um var kveðið á um að óheimilt væri að flytja hlutdeild makríls frá smábátum til uppsjávarskipa.  Með því var nefndin að tryggja að hér við land væri til frambúðar öflugur floti smábáta sem gæti nýtt þann makríl sem kæmi inn á grunnslóðina og koma þannig í veg fyrir að krafti stærðarinnar mundu allar veiðiheimildir á makríl yrðu í höndum stórútgerðarinnar.
Ráðherra hunsar fyrirmæli atvinnuveganefndar 
Í breytingartillögum atvinnuveganefndar var einnig ákvæði um að smábátum væri heimilt að skipta á veiðiheimildum í makríl við uppsjávarskipin fyrir þorsk, ýsu, ufsa eða steinbít.  Reglur um viðbótarheimildir yrðu sambærilegar milli ára.  En reglurnar frá 2018 voru þær að þegar makrílbátar sem fengið hefðu meira úthlutað en 27 lestir væru búnir að veiða 80% af heimildum sínum gætu þeir fengið 35 tonn úthlutað úr viðbótarpotti.  Þeir sem fengu 27 lestir og minna úthlutað ættu rétt á að fá strax úthlutað.  Ennfremur var ákvæði um að ef potturinn myndi ekki allur nýtast yrði veiðiheimildum sem eftir yrðu úthlutað til uppsjávarskipanna.
Því miður varð framkvæmd laganna ekki sú sem hér hefur verið greint frá, þrátt fyrir skýr fyrirmæli í nefndaráliti atvinnuveganefndar.  Reglugerð sem gefin var út um ráðstöfun viðbótarheimilda var breytt í tvígang og að lokum gefin út ný reglugerð þar sem veiðiskylda var felld brot og 27 lesta viðmið afnumið.
Makríllinn hvarf á miðri vertíð
Veiðar smábáta gengu illa í ár.  Loksins þegar góð veiði var komin, breyttist veður.  Norðan átt varð ríkjandi og sjór kólnaði um 4°C á stuttum tíma sem var líklega orsökin á að makríllinn hvarf af veiðislóð smábáta og hefur ekki sést síðan.
Hófst mikill hamagangur um að gera verðmæti úr makrílheimildum smábáta.  Aflamark smábáta var 2.857 lestir og búið var að úthluta um 2.000 tonnum af viðbótarheimildum.  Afli smábáta var hins vegar aðeins 2.047 tonn þegar veiðum var hætt.  Reglur kváðu á um að heimilt væri að flytja 10% af ónýttum heimildum milli ára og gilti sama regla um heimildir úr viðbótarpotti.
Misnotkun kallar á slæmt umtal
Þegar atvinnuveganefnd Alþingis ákvað að veiðiheimildir í makríl yrðu ekki innan sama kerfis eins og ráðherra hafði lagt til í frumvarpinu, heldur að þær yrðu annars vegar til nýtingar af smábátum og hins vegar uppsjávarskipum var nefndin að koma í veg fyrir að allar heimildir yrðu í einu vetfangi á hendi uppsjávarflotans.  Nefndin og Alþingi vildi með þessum hætti koma í veg fyrir að samþjöppun sem þessi ætti sér stað.  Líklegt er að þar hafi nefndin haft að leiðarljósi ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða sem kveður á um að óheimilt er að flytja aflahlutdeild í krókaaflamarki til nýtingar í aflamarki.  M.ö.o. veiðiheimildir í krókaaflamarki yrðu nýttar af smábátum.  Í lögunum er hins vegar glufa sem varð til vegna vandræða krókaaflamarksbáta við ýsuveiðar á árinu 2014.  Þar er ráðherra heimilað að setja reglugerð um flutning tiltekinna tegunda frá krókaaflamarksbátum til skipa sem hafa veiðileyfi í aflamarki.  Reglugerð þess efnis heimilar flutning á þorski og ufsa úr krókaaflamarki í jöfnum skiptum fyrir ýsu í aflamarki.  Kom ákvæðið sér vel meðan heimildir í ýsu voru við hungurmörk en grunnslóðin kakkfull af ýsu.  Á undanförnum árum hefur þetta ástand ekki varað og þegar LS sá að verið var að misnota ákvæðið óskaði LS við ráðherra, og hefur margítrekað, að hann felldi það úr gildi.  Þrátt fyrir vonarglætu að það mundi gerast með reglugerð fyrir yfirstandandi fiskveiðiár varð svo ekki.  Að ráðherra hafi ekki orðið við beiðni LS eru félaginu gríðarleg vonbrigði þar sem öll misnotkun á reglum sem settar eru veikja allt stjórnkerfi fiskveiða og er ávísun á slæmt umtal sem híft er til skýjanna með orðinu „brask. 
Makríllinn notaður í braskið
Vegna þessa möguleika voru um 2.000 tonn af þorski flutt úr krókaaflamarki á síðasta fiskveiðiári í skiptum fyrir jafnmörg tonn af ýsu úr aflamarkskerfinu.  Þessi tala hefur hins vegar hækkað um hundruði tonna á síðustu dögum.  Kunna menn að spyrja „hvað er nú í gangi? 
Því er til að svara að það var látið afskiptalaust að krókaaflamarksbátur gæti farið í A-flokk varðandi makrílinn, sem er lykillinn fyrir þeirri rúllettu sem nú er farin af stað.  Hún felst í að breyta veiðiheimildum krókaaflamarksbáta í aflamark með endalausum millifærslum á makríl.    
Þegar Fiskistofa sá hvað verða vildi, ákvað hún að stöðva allar færslur, enda málið grafalvarlegt.  Líklega hefur það verið gert til að gefa ráðherra andrými til að bregðast við með útgáfu reglugerðar sem kæmi í veg fyrir þessar tilfærslur.  Stöðvunin varði í rúma viku, en ráðherra ákvað hins vegar að bregðast við með því að láta þetta afskiptalaust.  Kl 16:00 mánudaginn 16. september sl. á síðasta degi millifærslna á aflaheimildum milli fiskveiðiára ákvað Fiskistofa að heimila færslur.  Þannig er staðan í dag og verði ekkert að gert mun staðan versna hvað varðar framtíð krókaaflamarksbáta dag frá degi eftir því sem fleiri ákveða að umbreyta veiðiheimildum í aflamark.  
Helsta ástæða fyrir afkomubresti er að útgerðir krókaaflamarksbáta eru margar háðar leigukvóta og hætt er við að verð hans við svona æfingar muni hækka mikið á yfirstandandi fiskveiðiári.  
Hvað hyggst ráðherra gera?
Landssamband smábátaeigenda hefur þegar óskað eftir fundi með ráðherra um þá stöðu sem upp er komin.  Inna hann svara við því hvort hann ætli að grípa inn í eða heimila rúllettuna áfram.    
Aðgerðaleysi er ávísun á að veiðikerfi krókaaflamarksbáta mun veikjast og hætt við að útgerðaraðilar þar munu sjá sæng sína út breidda.  Útgerð smábáta mun lenda í verulegum vandræðum sem mun hafa mikil áhrif á hinar dreifðu byggðir.  Umræða um sjávarútveg verður neikvæð, þar sem bent verður á samþjöppun þar sem nokkrir aðilar tróna yfir öllum veiðiheimildum landsmanna.
190918logo_LS á vef.jpg