Stjórnum við okkur ekki lengur sjálf?

„Sjálfstæði þjóðarinnar gagnvart nýtingu sjávarauðlindarinnar

Stjórnum við okkur ekki lengur sjálf? 

er yfirskrift skoðunargreinar eftir Örn Pálsson sem birtist í Fiskifréttum 3. apríl 2014.
Það er kannski til að æra óstöðugan að fjalla hér enn einu sinni um þau vandræði sem ónógar ýsuheimildir hafa valdið og þrákelkni vísindasamfélagsins gagnvart gríðarlegri ýsugengd. Þorskveiðar sem hefðu annars orðið afar arðbærar 

ÖP á heimasíðu A.jpg

hafa breyst í hreinustu martröð hjá fjölda útgerða. Veiðarnar skila ekki þeim hagnaði sem þær ættu að gera miðað við aðgengi að þorskinum. Hver þorskróðurinn af öðrum er farinn að breytast í að ýsa sé meginuppistaða aflans.

Þekking fiskimannanna

Í Fiskifréttum er fastur dálkur þar sem spjallað við „karlinn í brúnni.  Skipstjórnarnir sem rætt er við bera vitni um að mikið sé af ýsu á veiðislóð og full þörf á að bæta við kvótann. Þessir menn eru á miðunum allan ársins hring sem fært hefur þeim gríðarlega þekkingu á umhverfinu. Hvernig fiskurinn hegðar sér, í hversu miklu magni hann er miðað við undanfarin ár og áratugi, hvernig hann er á sig kominn, hvernig sóknin er á miðunum, hvernig umhverfisskilyrði hann býr við, hitastig sjávar, og allt annað sem hér er ótalið en snýr að þekkingu á lífríki sjávar. Þessum mönnum er treyst fyrir að afla gagna fyrir vísindasamfélagið í landi, sem þeir gera endurgjaldslaust með glöðu geði.   
Það að upplifa á árinu 2014 að þessari þekkingu sé kastað fyrir róða og ekki tekið mark á henni er þyngra en tárum taki og kastar rýrð á sérfræðingana í landi sem reiða sig á gögnin frá fiskimönnunum.
Erum við virkilega búin að 
njörva okkur svo niður, 
að ráð sem staðsett er 
í höfuðstað okkar til forna 
– Kaupmannahöfn – 
sé farið að stjórna hér 
með harðri hendi?

Hvað veldur?
En hvers vegna er þetta svona?  Hvers vegna er okkur ekki lengur leyft að ákvarða okkar veiðiheimildir sjálf? Höfum við án meðvitundar gengið í Evrópusambandið? Félagskapinn þar sem við höfum lítt um það að segja hversu mikið við eigum að veiða í hverri tegund? Það mætti að sönnu halda að svo sé.
Hinn 11. febrúar sl. sendi LS Sigurði Inga Jóhannssyni bréf þar sem óskað var eftir að veiðiráðgjöf í ýsu yrði endurskoðuð á grundvelli niðurstöðu úr haustralli Hafrannsóknastofnunar.  
„Landssamband smábátaeigenda fer hér fram á það við yður að þér kallið nú þegar eftir nýrri aflaráðgjöf fyrir ýsu frá Hafrannsóknastofnun fyrir yfirstandandi fiskveiðiár þar sem niðurstöður úr haustralli og upplifun sjómanna verði hafðar til hliðsjónar. 
Svar ráðuneytisins
Ráðuneytið sendi erindi LS til Hafrannsóknastofnunar 4. mars sem svaraði því sex dögum síðar. Þar er staðfest túlkun LS á niðurstöðum haustrallsins –
 „Samkvæmt mælingu á ýsugengd í stofnmælingu botnfiska haustið 2013 hækkaði vísitala nokkuð frá árinu 2012 og er svipuð og uppúr síðustu aldamótum áður en mikil stækkun stofns fór í hönd.
Og síðar í bréfinu segir:
„Þó vísbendingar séu um að afrakstursgeta ýsustofnsins sé heldur meiri en samkvæmt stofnmati á s.l. vori, eru ekki fiskifræðilegar forsendur til að breyta ráðgjöf stofnunarinnar á þessu stigi.

Alþjóðahafrannsóknaráðið
Og þá er komið að þeim kafla bréfsins sem segir okkur nokkuð um sjálfstæði okkar nú orðið og Hafrannsóknastofnun telur nauðsynlegt að minna ráðherra á?:
„Auk þess skal vakin á því athygli að samkvæmt gildandi aflareglu fyrir ýsu, er gert ráð fyrir að veiðum sé stýrt á grundvelli árlegrar úttektar í maí, m.a. á vettvangi Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES). 
Að meðtalinni fiskifræðilegri forsendu stofnunarinnar kýs ráðherra að nota ofangreint sem rök í svari sínu til LS:
„Að framansögðu gefnu og því að á s.l. ári ákvað ráðherra að ákvörðun um heildarveiðar á ýsu skuli til fimm ára byggjast á langtíma nýtingarstefnu sem fengið hefur staðfestingu Alþjóðahafrannsóknaráðsins mun ráðuneytið ekki breyta ákvörðun sinni um heildarýsuafla á þessu fiskveiðiári.
Sjálfstæði 

Við lestur þessa svars féllust mér hendur. Ég spurði mig þeirrar spurningar aftur og aftur: Hvað með sjálfstæði okkar í nýtingu auðlindarinnar? Er það virkilega svo komið að við séum búnin að njörva okkur svo niður að ráð sem staðsett er í höfuðstað okkar til forna – Kaupmannahöfn – er farið að stjórna hér með svo harðri hendi að forsendubrestur fyrir ráðgjöf nægi ekki til skynsamlegrar nýtingar einstakra fiskistofna? Gleymdist það kannski í þessum langa ferli að leita eftir áliti ráðsins?
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.