2. maí næstkomandi er fyrsti dagur í strandveiðum. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælaráðuneytinu verður reglugerð um veiðarnar gefin út í byrjun næstu viku og í kjölfarið opnað fyrir umsóknir hjá Fiskistofu.
Svæðaskipting strandveiða rædd í atvinnuveganefnd
Umsagnafrestur um frumvarp matvælaráðherra um svæðaskiptingu strandveiða er liðinn. Alls bárust nefndinni 11 umsagnir.
Bent skal á að verði frumvarpið ekki að lögum verða strandveiðar með sama hætti og þær voru í fyrra. Að óbreyttu verður heimilt að veiða allt að 10 þúsund tonn af þorski. Það er sama magn og lagt var af stað með í fyrra, en þegar líða tók á vertíðina var bætt við 1.074 tonnum.
Í umsögn LS við frumvarpið var lögð áhersla á að áfram verði byggt á núverandi fyrirkomulagi strandveiða. LS er ósammála því að aukið jafnræði við strandveiðar verði betur tryggt með þeim flóknu og ófyrirsjáanlegu breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þá bendir LS á að það sé engan vegin réttlætanlegt að strandveiðisjómenn þurfi að upplifa umturnun á veiðikerfi sínu samtímis og endurskoðun stendur yfir sem líklegt er að leiði til breytinga að ári.
Jafnframt er það skoðun LS að óraunhæft sé að ætla að Alþingi afgreiði svo viðamiklar breytingar á starfsumhverfi strandveiðisjómanna þegar aðeins 2 vikur eru þangað til veiðar hefjast.
Í frumvarpi ráðherra er gengið útfrá því að veiðiheimildir sem teknar eru frá til strandveiða dugi ekki til loka veiðitímabilsins maí – ágúst. Byggt er á að fiskgengd á grunnslóð verði áfram mismunandi milli landhluta á strandveiðitímabilinu og komi til þess að veiðarnar verði stöðvaðar á síðari hluta tímabilsins bitni það mest á norðaustur- og austursvæðinu.
Til að tryggja það jafnræði sem hér er vitnað til leggur LS til að í stað svæðaskiptinga verði áfram byggt á núverandi veiðistýringu þannig að veiðidagar á strandveiðum 2023 verði 11 í mánuði samfara því fellt verði burt úr lögunum ákvæði um að Fiskistofu sé skylt að stöðva veiðar þegar ákveðnum afla verði náð. Með því væri tryggt að veiðar næðu yfir allt veiðitímabil strandveiða maí – ágúst.