Á fundi stjórnar Landssambands smábátaeigenda sem haldinn var 17. febrúar sl. var ályktað um strandveiðar. Í umræðum kom fram að mikill og góður hljómgrunnur væri fyrir kröfu LS um breytingar á strandveiðikerfinu. Stjórnin var þó á einu máli um að full ástæða væri til að halda vöku sinni því settu marki yrði ekki náð baráttulaust.
Stjórn LS hvetur félagsmenn að láta í sér heyra. Ræða við ráðherra, alþingismenn, ráðamenn bæjar- og sveitarfélaga, auk annarra velunnara um kröfu LS um aukið rými til strandveiða.
Upphafsdagur strandveiða er 2. maí næst komandi.
Ályktun stjórnar LS um strandveiðar 2017
Stjórn Landssambands smábátaeigenda skorar á sjávarútvegsráðherra að beita sér fyrir auknu rými til strandveiða.Krafa LS er að strandveiðar verði samfelldar í fjóra mánuði, fjóra daga í viku.
Strandveiðisjómenn hafa setið eftir við aflaaukningu sem orðið hefur í þorski frá árinu 2011 sem nemur ársafla þeirra. Því er kjörið tækifæri nú að ganga að kröfum LS og svara aukinni eftirspurn á ferskum fiski og tryggja viðunandi afkomu af veiðunum.Strandveiðar hafa sannað gildi sitt. Aflameðferð er til fyrirmyndar, mikil eftirspurn er eftir fiski frá þeim og hinar dreifðu byggðir landsins kalla eftir nærveru þeirra. Strandveiðar hafa aukið sátt um stjórnkerfi fiskveiða, veiðistjórnun sem rúmast innan laga þess þar sem sérhverjum Íslendingi er heimilt að hefja veiðar án þess að leigja til sín veiðiheimildir.Nauðsynlegt er að bæta ímynd og auka sátt um sjávarútveginn. Sjálfstæður atvinnurekstur í formi strandveiða er betur til þess fallinn en aðrir valkostir.