Strandveiðar og Landssamband smábátaeigenda

Strandveiðar 3. grein af 3, eftir Gísla Gunnar Marteinsson
Í annarri greininni sem birtist sl. fimmtudag er stungið upp á nokkuð róttækum breytingum á strandveiðunum. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að gera þær þannig úr garði að þær séu komnar til að vera og að einhver heil brú sé í fyrirkomulaginu.
Það er skemmst frá því að segja að fundur Snæfells kolfelldi þessar tillögur. Ekki einn einasti fundarmaður, ótengdur flutningsmanni, studdi tillögurnar. En hvers vegna? 
Það kann að mega túlka þessar tillögur vestursvæðinu í hag, m.v. núverandi skiptingu. Snæfell starfar þar. Þarna kann því að hafa brotist fram samkennd fundarmanna með félögum sínum á öðrum svæðum.  
Gísli Gunnar.jpg
Líklegri ástæða er að hugmyndirnar ganga í berhögg við stefnu Landssambands  smábátaeigenda.  Þá er óhætt að segja að samstaðan sé aðdáunarverð. Hefði brugðið fyrir rauðum kverum hefði mátt halda að Maó formaður, sæti við háborðið.
LS vill þessar veiðar með sama fyrirkomulagi nema hvað veiða má fjóra daga í viku, þennan sama skammt, alla fjóra mánuðina sem veiðarnar standa. Þá segir sig sjálft að það er ekkert aflaþak á veiðunum, enginn heildarpottur. Aflaheimildirnar á ekki að taka af neinum, sem þýðir væntanlega að þær verða utan við úthlutaðar aflaheimildir á Íslandsmiðum.
Stjórnvöld hafa til margra ára ekki haft kjark til að víkja frá ráðleggingum Hafrannsókastofnunar og með aukinni trú fólks á þessi vísindi þá er ekki líklegt að það breytist. Alþjóðasamfélagið fylgist líka með og við skreytum okkur með því að við stundum sjálfbærar veiðar. Þetta þýðir því í stuttu máli að við veiðum ekki umfram ráðgjöf sem aftur þýðir að einhverjar veiðiheimildir sem vísindin gefa ekki grænt ljós á, þær eru ekki til. Því miður. Það má svo sem berja hausnum við steininn einu sinni enn, en sársaukinn verður sá sami og steinninn brotnar ekki.
LS verður því að fá þessar heimildir úr ,,Hvergilandi eða leggja spilin á borðið og segja:  „Við ætlum að auka hlut strandveiðanna á kostnað annarra. Það er viðbúið að á 1-2 árum tvöfaldist þessi pottur sem að lokum endar á sama veg og t.d. kerfi sem kallað var dagakerfi og var kvótasett með ríflegum hætti. Þessa sögu þekkja margir trillusjómenn bæði núverandi og fyrrverandi og ekki síst stjórn LS.
Á þessu ári hafa nokkrir félagsmenn í LS með miklar veiðiheimildir tilkynnt úrsögn úr félaginu. Það hefur gerst vegna þess að forystan hefur ekki verið þeim samstíga.  Svona dæmi hafa komið upp áður en þó ekki leitt til klofnings.  Óskandi væri að hægt væri að ná til þessara aðila á ný en þó er ekki ástæða til bjartsýni. Það fer fljótlega að heyrast baul í fjósinu ef stöðugt er tekið úr einni og sömu jötunni og bætt ofan á fóðrið í þeirri næstu.
Þessum skrifum er ætlað að skapa umræðu um þessi mál og hreyfa við mönnum.   
Kveikjan að þessum hugmyndum, um breytingar, er sú að undirritaður hefur tekið örlítinn þátt í strandveiðum undanfarin ár og honum ofbýður þetta fyrirkomulag í þjóðfélagi sem telur sig hafa vit á veiðum.
Niðurstaðan er þessi: Festum strandveiðarnar í sessi með ca 4% af úthlutuðum þorski, og gerum hlutina eins og menn. 
 
Í lokin vill undirritaður þakka Arthuri Bogasyni vel unnin störf og óskar honum velfarnaðar hvar sem hann ber niður.  
Bestu kveðjur, 
Gísli Gunnar Marteinsson, sjómaður.