Strandveiðar og stærðarmörk krókaaflamarksbáta

Dreift hefur verið á Alþingi stjórnarfrumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða.  Annars vegar eru það breyting á strandveiðikafla laganna og hins vegar er að sögn höfunda skerpt á 15 brúttótonna stærðarmörkum krókaaflamarksbáta.
Frumvarpið er hægt að nálgast með því að blikka hér
Viðbrögð framkvæmdastjóra LS komu að hluta til fram í Morgunblaðinu í dag, hér birtast þau í heild.   
„Frumvarpið eru viðbrögð ráðuneytisins við erindi LS þar sem gagnrýnt var harðlega að Fiskistofa hefði heimilað nýtingu krókaaflamarks á bát yfir stærðarmörkum krókaaflamarksbáta.  Gjörningurinn virðist hafa leitt framkvæmdavaldið í ógöngur, þar sem nú á að verðlauna þennan aðila, sem hefur olnbogað sig á það stig sem hann nú situr fastur, inn í aflamarkið eða eins og segir í athugasemdum við lögin:  „Í raun er hér um mögulegan ávinning a ræða fyrir hlutaðeigandi ef horft er til þess að verð varanlegrar hlutdeildar í aflamarki er nokkuð hærra en hlutdeildar í krókaaflamarki.   
Því er við þetta að bæta að LS hefur ásamt alþingismönnum sem stóðu að breytingum laganna 2002 aldrei efast um að óheimilt væri að nýta krókaaflamark á báta frá 15 brt. og upp úr, segir Örn Pálsson framkvæmdastjóri sambands smábátaeigenda.
Jafnframt er í frumvarpinu hlutdeild strandveiða í heildaraflamarki fest við 3,6% í stað þess að vera 6000 tonn. Miðað við þau 200 þúsund tonn sem veidd voru á síðasta fiskveiðiári hefði hlutdeild strandveiða verið 7200 tonn.
„LS samþykkti á aðalfundi sínum í október sl. að afli til strandveiða yrði hrein viðbót við útgefið heildaraflamark og þar af leiðandi mundu ekki skerða heimildir annarra skipa.   Aflinn mundi stýrast af þeim takmörkunum sem nú eru auk náttúrulegra þátta svo sem fiskgengd á grunnslóð og veðri.    
Það er fagnaðarefni að strandveiðar skuli festar í sessi en um leið miður að ekki skuli fylgt tillögum smábátaeigenda, sagði Örn Pálsson.