Nú þegar strandveiðar hafa verið stöðvaðar eftir rúmlega 10 vikna vertíð af þeim 18 sem lög gera ráð fyrir að þær standi yfir ætti öllum að vera ljóst að þær munu aldrei hér eftir geta verið hluti af kvótakerfinu. Kerfi sem hvorki er talið standast stjórnarskrá Íslands né alþjóðleg mannréttindi skv. áliti Mannréttindanefndar SÞ frá 2007. Strandveiðar eiga ekki að vera hluti af slíku kerfi enda eru þær byggðar upp á allt öðrum forsendum en kvótakerfi almennt þar sem grunnur þeirra er sóknarmark með tilteknum dagafjölda, takmörkun á veiðitíma og veiðarfærum.
Áhugavert
Dagatal LS 2019
Bæklingur LS
NASBO Brochure
Veður
Gæðamál
Hvað þarf mikinn ís til að kæla aflann?
Upprunamerki: Iceland Responsible Fisheries
Virkt skipakort
Landssamband smábátaeigenda
Hverfisgötu 105
101 Reykjavík
Sími: 552 7922
ls@smabatar.is
Strandveiðar úr kvótakerfi
Í dag 21. júlí birtist í Morgunblaðinu grein eftir Magnús Jónsson veðurfræðing, stjórnarmann í LS og formann Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar.
Vísindatrúin mikla
Ein af forsendum kvótakerfis á fiskveiðum er að hægt sé á vísindalegum forsendum að mæla og/ eða reikna út hversu mikið magn sé af hverjum fiskistofni í sjónum á tilteknu hafsvæði, t.d. miðum umhverfis Ísland. Árum saman hefur þjóðinni verið talin trú um að þetta sé hægt svo ekki skakki nema örlitlu broti úr prósenti. Mér er ekki kunnugt um að nokkur maður sem kemur nálægt fiskveiðum hér á landi hafi trú á að þessir ofurnákvæmnisreikningar Hafró séu mögulegir. Þekkingin á breytileika í umhverfi, lífríki hafsins og öllu því samspili sem þar á sér stað milli tegunda og innan tegunda, gefur í besta falli möguleika á að áætla stærð einstakra stofna með tugprósenta fráviki. Að halda öðru fram er að áliti mínu blekking eða oftrú á eigin þekkingu og reiknigetu nema hvort tveggja sé. Og í ljósi þess að allar mæli- og reiknistærðir eru settar fram á grundvelli varúðarreglna er eðlilegt að um meðvitað vanmat á stofnstærð sé að ræða.
Reynslan er ólygin
Reynslan er ólygnust þegar þessi fræði eru skoðuð. Í nærri 40 ár hefur enginn stórstofn í þorski komið fram þrátt fyrir margföldun í stærð hrygningarstofns. Engin vísindaleg skýring er á þessu. Eftir meira en 300.000 tonna veiði UMFRAM ráðgjöf frá því að aflaregla var tekin upp 1995 stækkaði stofninn verulega og náði metstærð skv. mælingum/ útreikningum/ ágiskunum Hafró 2017. Engin skýring er á því. Og þrátt fyrir að ráðgjöf vísindamanna um veiðar hafi verið að mestu fylgt síðustu fimm árin skv. 20% aflareglu hefur veiðistofninn minnkað um ca 300.000 tonn og ráðgjöfin farið niður um meira en fjórðung. Skýringar á þessu liggja heldur ekki á lausu. Á nærri 30 ára tímabili aflareglu hefur meðalþyngd fiska fallið í flestum árgöngum um leið og veiðin hefur að stórum hluta flust frá fiski undir sjö ára aldri og yfir í stórfisk eldri en sjö ára. Margir spyrja hvort þessi veiðistefna og ráðgjöf sé farin að draga úr afrakstursgetu stofnsins, t.d. með meira sjálfsáti og auknum ellidauða í stofninum, en við því fást engin svör.
Í ljósi reynslunnar síðustu þrjú
árin er það skoðun undirritaðs
að strandveiðarnar verði að
skilja frá kvótakerfinu
Kvótaáróðurinn og strandveiðarnar
Allt frá því að strandveiðarnar voru teknar upp 2009 hafa þær verið spyrtar við aflamarkskerfið með því að ákveða fyrirfram hversu mörg tonn megi veiða með þessum hætti. Frá upphafi strandveiða 2009 eða í 15 ár hafa veiðst alls um 125.000 tonn af þorski. Til samanburðar telur Hafró nú veiðistofn þorsks vera rúmlega 1 milljón tonn. Þá bendir flest til þess að á þessum 15 árum hafi brottkast hjá kvótaflotanum verið mun meira en það magn sem fengist hefur á strandveiðum.
Á síðustu árum hefur strandveiðikvótinn í þorski verið milli 9.000 og 11.000 tonn sem lætur nærri að sé á þessum árum nálægt því að vera um 1% af reiknuðum veiðistofni þorsks á hverju ári. Kvótaeigendur, stjórnvöld og Hafrannsóknastofnun hafa verið samstiga í því að halda því fram að meira magn til strandveiða ógni þorskstofninum og fari gegn þeirri stefnu sem hér er sögð rekin um ábyrgar og sjálfbærar veiðar á grundvelli pólitískrar 20% aflareglu. Aflareglu sem byggist á ófullnægjandi þekkingu og gögnum sem Hafró aflar og reiknar, leggur fyrir ríkisstjórn og fær síðan samþykkt með eigin atkvæðum á alþjóðlegum ráðstefnum. Ráðstefnum þar sem sama hugmyndafræði og stefna hefur verið rekin áratugum saman og hefur að því er virðist litlu skilað nema hnignun flestra stofna, bæði hér við land og á flestum hafsvæðum N-Atlantshafs. Og til að bíta hausinn af skömminni hafa stjórnvöld ákveðið að skilgreina strandveiðar sem byggðapólitíska hjálparstarfsemi með því að hafa þær inn í svokölluðum „félagslegum potti fyrir smábátaútgerð og sjávarþorpin umhverfis landið! Veiðiaðferð með önglum sem hefur verið notuð hér frá upphafi byggðar og er raunar hluti af frelsi, atvinnumenningu, lífsbaráttu og sálarlífi þjóðarinnar.
Út úr kvótakerfinu
Í ljósi reynslunnar síðustu þrjú árin er það skoðun undirritaðs að strandveiðarnar verði að skilja frá kvótakerfinu og byggjast eingöngu á því skýra lagaákvæði að „heimilt er hverju skipi að stunda strandveiðar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar mánuðina maí, júní, júlí og ágúst. Kvótakerfið geti hins vegar lotið 20-25% aflareglu en breytilegur afli strandveiðanna hafi þar engin áhrif. Strandveiðiafli verður aldrei meiri en svo að hann mun ávallt verða langt innan skekkjumarka í varúðarreiknaðri stofnstærð þorsks, jafnvel þótt bátum fjölgi nokkuð. Raunar er tekið fram í reglugerð að strandveiðiafli teljist ekki til aflamarks eða krókaaflamarks. Samt hafa stjórnvöld troðið strandveiðiaflanum inn í það heildaraflamark sem Hafró mælir/ reiknar/ leggur til á grundvelli 60 ára gamalla kenninga um þróun stofnstærðar og án þess að þekkja náttúruleg afföll.
Lokaorð
Á fjölmennum baráttufundi hjá Félagi strandveiðimanna sem haldinn var á Austurvelli 15. júlí sl. var hinni gerræðislegu ákvörðun matvælaráðherra að stöðva strandveiðar mótmælt harðlega. Það hlýtur að vera einstök stjórnsýsla að ráðherra grunnatvinnuvegs þjóðarinnar ákveði að svipta með sólarhrings fyrirvara a.m.k. 200 manns atvinnu og tekjum eins og gerðist þegar ákveðið var að banna hvalveiðar og bæta svo um betur og gera meira en 1.000 manns án lífsviðurværis í allt að tvo mánuði með átta klukkustunda fyrirvara með stöðvun strandveiða.
Höfundur er formaður Drangeyjar –
smábátafélags Skagafjarðar.