Strandveiðar verði efldar

Á fundi stjórnar LS 3. mars sl. var meðal dagskrárliða Strandveiðar 2015.   Stjórnin var einhuga um að nauðsynlegt væri að efla veiðarnar og gera allt sem hægt væri til að tryggja að ekki kæmi til stöðvunar veiða eftir nokkra daga sókn hvers mánaðar.   
LS fundaði nýverið með sjávarútvegsráðherra um hugmyndir sem miða að auknum rétti strandveiðimanna.  Þær gera ráð fyrir að leyfilegur heildarafli verði aukinn um 2000 tonn.  Með slíkri heimild yrði farið langt með að uppfylla samþykkt aðalfundar LS að strandveiðar verði heimilaðar 4 virka daga í viku á tímabilinu maí – ágúst.  
Meðalfjöldi leyfilegra daga á strandveiðum í fyrra voru 48 á svæðunum fjórum.  Ekki kom til stöðvunar á svæði D (S-land – Faxaflói), heimilt var að róa þá 64 daga sem í boði voru.  Á C-svæði (S-Þingeyjarsýsla – Djúpivogur) voru dagarnir 55, á B (Horn – Eyjafjarðarsýsla) 45 og A (Breiðafjörður – Súðavík) aðeins 29 dagar.  Það er því ljóst að úrbætur eru mest knýjandi á svæði A.
Á fundinum með ráðherra kom fram að Byggðastofnun væri að skoða hvernig byggðaúrræði laga um stjórn fiskveiða hefðu nýst á undanförnum árum.  Sú athugun væri liður í undirbúningi að þingsályktun sem ráðherra mun leggja fram á næstunni.  Þingsályktunin mun fjalla um ráðstöfun og aflamagn þeirra 5,3% sem fara í „pottana.   
Löndun Patró strandv. 2013.jpg