Strandveiðar verði gefnar frjálsar

Á aðalfundi LS í október sl. var kosinn nefnd um frjálsar handfæraveiðar.  Nefndin hefur fundað og skilaði frá sér áliti til stjórnar LS sem stjórnin samþykkti án teljandi athugasemda.
LS hefur sent sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu þær breytingar sem félagið vill að verði gerðar á núgildandi reglum um strandveiðar og grundvallaðar eru á framangreindri samþykkt.
a. Strandveiðibátum verði heimilt að veiða alls 2.594 tonn að ufsa sem teljist ekki til         
        viðmiðunar.  Aflamagnið er samanlagður afli strandveiðibáta 2011 og þess ufsaafla sem 
        brann inni í krókaaflamarkskerfinu að meðaltali síðastliðin tíu fiskveiðiár. 
        Við ufsaveiðar minnkar sókn í þorsk og því um óverulega aflaaukningu að ræða. 
b. Hvati til aukinnar sóknar í ufsa yrði með því að hafa þorskígildisstuðul á honum 0,30 í stað 
        0,61.
c. Að eignarhlutur í strandveiðibát verði að lágmarki 25% þannig að viðkomandi uppfylli 
        ákvæði laganna um lögskráningu sem er forsenda fyrir strandveiðleyfi 2012.
Eftirfarandi undantekningar verði á ákvæðinu:
        1. Vegna veikinda eða slysa eiganda sem leiða til þess að viðkomandi getur ekki róið. 
        2. Þegar barn eiganda rær, enda sé eignarhald báts á einni hendi eða að jöfnu í eigu 
                foreldra. 
        3. Þegar einn hlutur jafnra eignarhluta er minni en 25%, enda vandséð hvernig hægt 
                verði að róa þeim bát þegar fleiri en fjórir eiga í hlut.
Strandveiðikerfi til framtíðar
Á fundum sínum fjallaði nefndin einnig um framtíð strandveiða.  Ákveðið var að skora á stjórnvöld að gefa veiðarnar frjálsar með þeim takmörkunum sem nú eru: 
4 dagar í viku  
hver dagur 14 klst. 
650 þorskígildis kíló að hámarki hvern dag
4 rúllur hver bátur
4 mánuðir á ári 
veiðitímabil:  maí – ágúst.
svæðaskipting verði óbreytt
að afli í strandveiðikerfinu verði utan aflahlutdeildar.
Í nefnd LS um frjálsar handfæraveiðar kaus aðalfundur eftirtalda:
Guðlaugur Gunnarsson Ólafsvík, formaður nefndarinnar.
Kristmundur Kristmundsson Gjögri
Oddur V. Jóhannsson Vopnafirði
Konný Breiðfjörð Leifsdóttir Reykjavík
auk þeirra er í nefndinni
Ketill Elíasson Bolungarvík – skipaður af stjórn LS.