Úthlutun makrílveiðiheimilda og verslun með þær
Subbuskapur
Er yfirskrift greinar eftir Axel Helgason sem birtist í Fiskifréttum í dag 8. júní
Í apríl síðastliðnum gaf sjávarútvegsráðherra út reglugerð um úthlutun aflaheimilda í makríl. Reglugerðin er sú sama og Sigurður Ingi Jóhannsson setti árið 2015 þegar hann var gerður afturreka með lög um kvótasetningu makríls með undirskriftum rúmlega 50 þúsund Íslendinga. Niðurstaða makrílvertíðanna 2015 og 2016 er varðar árangur reglugerðanna átti að hringja bjöllum í sjávarútvegsráðuneytinu hefði skynsemi fengið að ráða, sérstaklega er varðar úthlutun í tvo flokka, skip án vinnslu og vinnsluskip. Flokkur skipa án vinnslu fékk í fyrra úthlutað 7.900 tonnum af makríl sem dreifðist á 77 skip. 75 af þessum skipum veiddu ekki neitt heldur leigðu eða millfærðu úthlutaðar heimildir, samtals 7.850 tonn. Í flokki vinnsluskipa var úthlutað um 28.000 tonnum á 23 skip, 17 af þeim veiddu ekki neitt heldur leigðu eða millifærðu úthlutaðar heimildir, samtals um 19.000 tonn.
Veiðiskylda
Engin veiðiskylda er á heimildum á makríl og á síðustu vertíð voru 37.000 tonn af honum framseld frá þeim sem fengu upp í hendur þessi gæði. Í ár er ráðherra að úthluta rúmlega 30.000 tonnum af makríl til skipa sem ekki nýttu eitt kíló af sínum heimildum á síðustu vertíð, heldur leigðu þær frá sér á 26 krónur kílóið, eða millifærðu til annara skipa.
Útgerðarmaður sem fékk í ár úthlutað 24,3 tonnum á smábát í flokki skipa án vinnslu fékk í síðustu viku greiddar 36 krónur fyrir leigu á kílóið eða tæpar 900.000 krónur. Ætla má að það sé gangverðið á heimildunum á þessari vertíð. Á síðasta ári fékk sami aðili 30 krónur fyrir kílóið. Sá aðili sem leigði heimildirnar til sín var Eskja hf og voru þær fluttar á Aðalsteinn Jónsson SU-11. Áhugavert verður að fylgjast með aflaverðmæti til skipta á Aðalsteini á komandi makrílvertíð, en samkvæmt tölum frá Verðlagsstofu skiptaverðs frá síðustu vertíð var meðalverð til skipta um 46 krónur í viðskiptum milli skyldra aðila, en 62 krónur milli óskyldra aðila.
Hver borgar
Af þessu sýnist mér ljóst að það frelsi sem útgerðin virðist hafa til að hlunnfara sína sjómenn um rétt verð á makrílnum skapi svigrúm til að borga hver öðrum leigu sem nemur nú í ár líklega hærri tölu en uppgefnu aflaverðmæti til útreiknings skiptaverðs og áhugavert að setja 36 krónu leiguverð í samhengi við skiptaverð á síðustu vertíð, sem var rétt rúmar 9 krónur.
Þar sem ekki er búið að festa makrílinn í varanlega hlutdeild hljóta upplýsingar um þessi leiguviðskipti að skapa grundvöll fyrir gjaldheimtu
á þá sem hafa þetta svigrúm.
En það sem í raun ætti að gerast með uppsjávartegundir, þar sem ekkert er selt á markaði og verðmyndun að því er virðist að mestu í hendi útgerðarinnar, er að aflaverðmæti verði ákveðið sem hlutfall af útflutningsverðmæti afurðanna og ef verið sé að nota hlutfall til útreiknings aflaverðmætis er augljóst að svigrúm sé til að hækka það.
Ráðherra upplýstur
Áður en ráðherra gaf út núgildandi reglugerð upplýsti Landssamband smábátaeigenda hann um braskið með þessar heimildir. Því miður sá ráðherra enga ástæðu til breytinga. Vonandi eru þessi viðbrögð ekki vísbending um það sem eftir á að koma frá ráðherranum, því að við þurfum á kjarkmiklum ráðherra að halda sem hefur þor til að breyta rétt og skapa sátt um sjávarútvegin eins og henni hefur verið svo tíðrætt um.
Ég skora á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra að stöðva heimildir til framsals úr flokki skipa án vinnslu og vinnsluskipa og endurúthluta á miðri vertíð ónotuðum heimildum í leigupott til handfæraveiða á makríl og hafa þær heimildir óframseljanlegar.
Höfundur er formaður Landssambands smábátaeigenda.