Teflt á tæpasta vað


Grásleppuhrogn – framboð og eftirspurn 
Teflt á tæpasta vað 
er yfirskrift greinar eftir Örn Pálsson sem birtist í Fiskifréttum 14. apríl.
Grásleppuvertíðin stendur nú sem hæst.  Allt stefnir í metþátttöku í veiðunum annað árið í röð.  Á vertíðinni í fyrra stunduðu 320 bátar veiðarnar og gera má ráð fyrir að á annað þúsund manns hafi komi að veiðum, vinnslu og umsýslu aflans.  
 
Atvinnugreinin er gríðarlega mikilvæg fyrir smábátaútgerðina og þar með hinar dreifðu byggðir. Allan veturinn fer fram undirbúningur fyrir vertíðina þegar netin eru gerð klár þannig að vel veiðist á þeim stutta tíma sem vertíðin stendur. Segja má að lífið kvikni á mörgum stöðum með upphafi vertíðarinnar.  
Sammerkt með öðrum atvinnugreinum er afkoman háð verði fyrir grásleppuna og hrognin, hvernig veiðist og hversu mikið er skynsamlegt að veiða þannig að stöðugleiki verði á markaðnum.  
ÖP á heimasíðu A.jpg

Stjórnun veiðanna
Landssamband smábátaeigenda hefur komið að stjórnun veiðanna nánast frá stofnun félagsins 5. desember 1985 þegar það tók við þeim kaleik frá Samtökum grásleppuhrognaframleiðenda. Vertíð númer 31 í sögu LS stendur nú yfir.  Á henni fer saman afburðagóð veiði og lágt verð.  Viðbrögð við slíku er aðeins eitt, það er að dregið verði úr veiði.
Innan Landssambands smábátaeigenda er starfandi grásleppunefnd sem er einráð um þau mál. Nefndin er skipuð 7 aðilum, einum af hverju veiðisvæði sem kosnir eru árlega á aðalfundi LS.  
Upplýsingafundir með öðrum þjóðum
Árlega frá 1989 hefur LS staðið fyrir upplýsingafundi um grásleppumál.  Fundirnir eru haldnir fyrsta föstudag í febrúar og var tímasetning valin út frá því að gera upp liðið ár, þar með talið að segja til um hvernig kavíarinn hafði selst, en stærsti sölutími hans er jólin. Þannig væri hægt að ráða í hversu stór markaðurinn væri og þá hverjar væntingar væru fyrir komandi vertíð.  Upplýsingafundirnir bera nafnið LUROMA ( Lumpfish Roe Matters ).  Fundi LUROMA sitja fulltrúar grásleppuveiðimanna, kavíarframleiðenda og söluaðilar grásleppuhrogna.  LUROMA 2016 var haldinn í Kaupmannahöfn og sóttu hann 34 manns frá alls 10 löndum.
Varkárni
Í kjölfar LUROMA er grásleppunefnd kölluð saman til skrafs og ráðagerða fyrir  komandi vertíð.  Þar sem blikur voru á lofti um enn meiri verðlækkun hafa fundir nefndarinnar að þessu sinni verið óvenjumargir.   
Strax að loknum fyrsta fundi nefndarinnar þann 9. febrúar ákvað hún að beina því til grásleppuveiðimanna að gæta ýtrustu varkárni varðandi komandi vertíð. Óvissa væri um markað fyrir hrognin og enn væru óseldar nokkuð hundruð tunnur frá síðustu vertíð.  Yfirskrift tilkynningarinnar var VARKÁRNI.
Þann 10. mars sendi nefndin aftur frá sér tilkynningu undir yfirskriftinni „Veiði takmarkist við 10 þús. tunnur. Þar greindi grásleppunefnd frá því að hún legði til að heildarveiði á vertíðinni færi ekki umfram 10 þús. tunnur sem væri það magn gæti tryggt viðunandi afkomu og stöðugleika á mörkuðum.  Tíðindin lögðust misvel í grásleppukarla þar sem útlit var fyrir góða veiði og magnið væri nálægt fimmtungi minna en vertíðin 2015 hafði skilað.
Screen Shot 2016-04-15 at 13.44.04.png

Fjöldi veiðidaga

Sá háttur hefur verið hafður á undanfarin ár að fjöldi veiðidaga er ákveðinn til bráðabirgða við útgáfu reglugerðar þar sem niðurstaða úr vorralli Hafrannsóknastofnunar liggur ekki fyrir þegar vertíð er hafin. Eins og í fyrra voru ákveðnir 20 veiðidagar í fyrstu. Endanlegur fjöldi veiðidaga árið 2015 var 32 sem skilaði heildarveiði á mörkum þess sem Hafró hafði mælt með eða 6.200 tonnum.
Á vertíðinni nú er komin upp sú staða að niðurstöður mælinga Hafró segja að heimilt sé að veiða 6.800 tonn. Miðað við svipaða þátttöku í veiðunum og óbreytt aflabrögð frá í fyrra ætti því að fjölga dögum. Það eru í sjálfu sér góðar fréttir. Það er hins vegar mat LS að hér verði að fara afar varlega og ákvörðun um fjölda daga taki að stærstum hluta mið af markaðsaðstæðum.  Fjöldi daga má ekki leiða til þess að veiði skili meiru en 5.300 tonnum sem svarar til 10 þúsund hrognatunna. 
Framboð og eftirspurn
Aðalástæðan fyrir kröfu LS um minni veiði er að bein fylgni er á milli framboðs og eftirspurnar á grásleppu og grásleppuhrognum. Meðfylgjandi graf (tafla) sem byggt er á útflutningstölum Hagstofu Íslands af söltuðum grásleppuhrognum í evrum og heimsveiði sýnir þetta svo ekki verður um villst. Undirrituðum er það til efs að nokkur önnur sjávarafurð en grásleppan eigi svo mikið í húfi að fylgt sé takmarkaðri veiði. Veiðistýring verður því að taka mið af fleiru en útgefnum kvóta Hafrannsóknastofnunar.  Það er ekki minni ábyrgð sem hvílir á stjórnvöldum að koma í veg fyrir sóun á þeim verðmætum sem tekin eru úr auðlindinni og því að ganga vel um hana.  Nú er t.d. þannig komið fyrir grásleppuveiðum í Noregi og Nýfundnalandi að þær eru ekki lengur stundaðar þar vegna þess að verð til sjómanna er orðið of lágt. 
Screen Shot 2016-04-15 at 13.42.26.png
Þegar offramboð verður tekur það nokkur ár að snúa til baka og ná fram hærra verði.  Af þriggja áratuga sögu kýs ég að velja það sem er okkur næst, tímabilið 2001 – 2010.  Árið 2004 varð veiðin langt umfram eftirspurn. Á eftir fylgdu ár verðlækkunar sem svarað var með því að draga úr framboð næstu þrjú árin. Þá snérist dæmið við.  Tillögu LS til stjórnvalda um 26 daga nú var ætlað að snúa verðlækkunaráformum við með því að draga úr framboði. Það eru því vonbrigði að sjávarútvegsráðherra hafi nú ákveðið óbreyttan dagafjölda frá fyrra ári eða 32 daga. 
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.