Tillaga um netaveiðar – grein eftir Örvar Marteinsson


Ólafsvík 15. október 2019
Síðustu ár hefur rekstur línuútgerða verið erfiður og nokkrar útgerðir lagt upp laupana. Ástæðan 

Screen Shot 2019-10-15 at 20.39.44.png

hefur verið sífellt vaxandi kostnaður vegna beitu og beitningar. Það hefur stuðlað að samþjöppun aflaheimilda og fækkun í okkar hópi. Nú virðist sem nokkrir í viðbót séu að fá náðarhöggið.
Aðkallandi vandamál ógnar nú rekstri línubáta í krókaaflamarki. Töluverð ýsugengd er á miðunum en lítið af þorski. Ýsukvótinn var hins vegar skorinn niður og ýsukvóta er hvergi að fá til leigu. Farið er að bera á því að bátar séu bundnir við bryggju vegna þessa og nú þegar, í október, er farið að bera á uppsögnum starfsfólks, og frekari uppsagnir eru í vændum ef ekki úr rætist. Útgerðir sem hafa úr einhverjum  þorskkvóta að spila geta ekki gert út á línu af því engan ýsukvóta er að fá. Því miður má skilja á vísindaelítunni að ekki taki betra við á næsta ári. 
Því er útlit fyrir enn frekari uppgjöf hinna minni og þar með enn frekari samþjöppun veiðiheimilda hjá hinum stærri. Enda eru þeir stóru þeir einu sem geta keypt.
Væru netaveiðar krókaaflamarksbáta leyfðar myndi það leysa vandamálið að öllu eða mestu leyti. Það myndi gera mönnum kleift að veiða þorskinn án þess að þurfa ýsukvóta en ekki síst myndi það losa um ýsukvóta til leigu á viðráðanlegu verði til þeirra sem gerðu út á línu. Þeir sem ætluðu sér að veiða þorskinn fyrst og fremst í net myndu leigja frá sér ýsukvótann, sem myndi aftur gera öðrum mögulegt að gera út á línu. Einnig myndi það gagnast þeim sem vildu vera á línu framan af vertíð en skipta yfir á net seinni hluta vetrar.
Snæfell, félag smábátaeigenda á Snæfellsnesi,  hefur lagt fram tillögu um að leyfa netaveiðar krókaaflamarksbáta frá 1. september til 15. apríl . Þessar dagsetningar eru settar fram sem sáttatillaga til að sætta þá sem eru á handfæraveiðum að vori og telja að netin myndu þvælast fyrir þeim og þannig valda hagsmunaárekstrum.
Verði tillagan samþykkt á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda verður það eins og líflína til þeirra félaga sem gera út krókaaflamarksbáta og mun styðja við smábátaútgerð um allt land.
Örvar Marteinsson, formaður Snæfells