Á aðalráðstefnu UNESCO í París hinn 1. nóvember s.l. var kynnt og undirbúin áætlun sem fer fyrir ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, árið 2012. Ráðstefnan er framhald ráðstefnunnar sem haldin var í Rio árið 1992 og 2002 í Jóhannesarborg. Ráðstefnan 2012 ber heitið Rio +20.
Í áætluninni er m.a. farið yfir mikilvægi haf- og strandsvæða fyrir efnhag og afkomu í heiminum, gildi hafsins varðandi dýrmæt næringarefni og þátt þess í veðurfari.
Þá kemur fram að þrátt fyrir að 70% af yfirborði jarðar sé undir hafi, sé aðeins 1% þess verndað.
Í áætluninni koma fram 10 megin tillögur svo bæta megi stjórnun á haf- og strandsvæðum heimsins:
° Stofna alþjóðlegan markað um kolefni til að beintengja efnahagslegan vöxt og náttúruvernd
° Fylla upp í stjónunarlegt tómarými varðandi úthöfin með því að staðfesta Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna
° Styðja þróun grænna hagkerfa á eyjaklösum þróunarríkjanna
° Ýta undir rannsóknir á súrnun sjávar og hvernig draga megi úr henni
° Auka getu viðeigandi stofnana til að stunda vísindalega vöktun á haf- og strandsvæðum
° Endurskipuleggja og efla félagasamtök varðandi svæðisbundna stjórnun
° Hvetja til ábyrgra fiskveiða og fiskeldis í grænum hagkerfum
° Styrkja lagaramma sem auðveldar að fást við ‘yfirgangssamar’ tegundir í ferskvatnskerfum
° „Grænka næringarefnaiðnaðinn (t.d. áburð)
° Hvetja til samræmingar og virkni kerfi Sameinuðu þjóðanna er varða málefni hafsins
Áætlunin var sett saman af aðilum frá FAO, UNESCO, Alþjóða siglingamálastofnuninni og Alþjóða þróunarmálastofnuninni.
Höfundar hennar benda á fjölmarga þætti sem fæstir leiða hugan að, dags daglega. Þær samþykktir sem gerðar voru í Rio og Jóhannesarborg hafa ekki valdið svefntruflunum hjá mörgum ríkisstjórnum heims. Þannig eru yfir 400 hafsvæði í dag, sem hafa verið lýst „líffræðilega dauð.
Þeir skafa síðan ekkert af því:
„Full framkvæmd flestra þessara markmiða krefst þess að ríki, alþjóðastofnanir og alþjóða samfélagið leggi meira á sig. Núverandi ástand er afrakstur lítils pólitísks áhuga og takmarkaðra fjárframlaga, vanmáttugra stofnana, ófullnægjandi vísindalegra gagna og ójafnvægis markaða’.