Fyrir nokkru barst LS ábending frá Guðlaugi Jónassyni félaga í Bárunni Hafnarfirði – Garðabær. Hann hafði áhyggjur af togveiðum sem stundaðar væru á þekktum hrygningarsvæðum síldarinnar. Benti á að sl. sumar hefði mátt sjá togara á veiðum á Papa- og Stokknesgrunni á sama tíma og síld gengur þar uppá til að hrygna. Mynd sem hér fylgir er tekin af Marinetraffic í júlí 2021.
Á Papagrunni hefði verið togað í gegnum stórar síldartorfur og afli skipana verið stór fiskur sem var að gæða sér á síld.
Guðlaugur sagðist hafa tilkynnt málið til Lísu Anne Libungan fiskifræðings hjá Hafrannsóknastofnun sem starfar við uppsjávarfisk. Henni var brugðið við þau beinhörðu sönnunargögn sem hún fékk upp í hendurnar og vænta má að málefnið hafi verið rætt innan stofnunarinnar, enda grafalvarlegt. Því hafi það komið honum á óvart að Hafrannsóknastofnun hefði ekki brugðist við þessari innrás togara á hrygningarsvæði síldarinnar.
Hér með lýsir LS eftir viðbrögðum Hafrannsóknastofnunar við ábendingum Guðlaugs.
Jafnframt greindi Guðlaugur frá því að honum væri kunnugt um að sjómenn hafi margsinnis bent Fiskistofu á botntrollsveiðar þar sem síld kemur upp á grunnin á sumrin til að hrygna. Viðbrögð stofunnar hefðu enn ekki verið merkjanleg.
Guðlaugur sagði sína skoðun vera þá að friða ætti síld fyrir togurum þegar hún gengur upp á grunnin á sumrin til að hrygna. Síldin væri mikilvægur nytjafiskur og æti fyrir annan fisk og með því að gefa henni frið til að hrygna ætti að vera hægt að stækka þorsk og ufsastofninn öllum til hagsbóta.