Tvískinnungur í makrílmálum

Í Fiskifréttum hinn 21. febrúar s.l. birtist í Fiskifréttum grein eftir formann Landssambands smábátaeigenda, Arthur Bogason, undir fyrirsögninni „Tvískinnungur. Í henni fjallar hann um makrílmálið og óskiljanlegar hugmyndir stjórnvalda og fleiri þess eðlis að smábáta- og strandveiðiflotinn eigi lítið sem ekkert að fá að veiða af honum.  Hér er greinin:

Eitt af því sem
Íslendingar búa við eftir efnahagshrunið 2008 er laskað
orðspor þjóðarinnar.
Að vísu hef ég orðið var við þann misskilning nokkuð víða erlendis, að
Íslendingar hafi gert allt eins og villtustu draumar almennings snúast um í
kjölfar slíkra áfalla; kastað út ónýtum stjórnmálamönnum, handtekið og
réttað yfir ráðherrum, banka- og fjármálaskúrkum sem nú sætu bak við lás og
slá upp á vatn og brauð.
Ég verð hálf vandræðalegur þegar ég þarf að leiðrétta þetta. Mér finnst
alveg nóg að víða sé talið varasamt að treysta Íslendingum í fjármálum þótt
þessi della bætist ekki við.

Það getur varla talist óeðlilegt að ætla, vegna þessa, að Íslendingar væru
hin síðari misseri að vanda sinn málflutning og forðuðust í lengstu lög að
láta ekki góma sig við dellumálflutning og tvískinnung.

 Makrílmálið

Framansagt kemur mér í hug þegar ég velti fyrir mér fyrirferðarmiklu máli
innan sjávarútvegins og samskiptum okkar við Evrópusambandið.

Þetta er makríllinn. Fyrir örfáum árum hóf þessi sprettharði andskoti að
ganga af krafti inn í efnahagslögsöguna, á mið og uppeldisstöðvar tegundanna
sem hafa hingað til verið hryggjarstykkið í sjávarútveginum og þar með efnahag
þjóðarinnar.
Árið 2008 fór afli úthafsflotans í 112 þúsund tonn og síðan þá mest í 150
þúsund tonn. Í kjölfarið varð Evrópusambandið arfavitlaust og hóf austur
ásakana og hótana sem aldrei fyrr. Makrílmálið hefur sérstaklega reitt til
reiði útgerðir í Skotlandi, en þar er kvikindið „þorskurinn þeirra. Ég skil
þessa aðila ágætlega.

 En gallinn er sá,
þeirra vegna, að rök Íslendinga í málinu eru ekkert út í loftið.

Við bendum á að
gríðarlegt magn af jafn þurftarfrekri tegund og makríllinn er sé ekki í
kurteisisheimsókn til að skoða land og þjóð. Hann strunsar hingað í fæðuleit og
hesthúsar hundruðir þúsunda tonna af fæðu út úr sama vistkerfi og fiskarnir sem
fyrir eru byggja tilvist sína á. Þá er ljóst að hann er farinn að hrygna hér
við land og þar
með skapast íslensk ættkvísl, sem styrkir málstað okkar til muna.

Erum í fullum rétti

Þeir eru ófáir innan sjávarútvegsins og annars staðar í þjóðfélaginu, sem
hafa stillt málinu þannig upp að stóra og vonda Evrópusambandinu sé rétt
lýst að níðast á litla veðurbarða Íslandi með þeim málflutningi sem það
hefur haft uppi. Það vilji bara skammta sér og sérstökum vinaþjóðum á borð
við Norðmenn úr þessum stofni. Aðrir megi éta það sem úti frýs.

Það var og er fullkomlega útilokað fyrir fiskveiðiþjóð að láta sem ekkert
sé. Fyrstu árin, þegar makríllinn byrjaði að skríða inn í efnahagslögsöguna,
veiddist hann sem meðafli við aðrar uppsjávarveiðar. Hvað átti að gera?
Hætta veiðum? Engri alvöru fiskveiðiþjóð dytti slíkt í hug. Við erum í
fullum rétti og stöndum keik með okkar málstað hvar og hvenær sem er.

Makríllinn færi sig nær ströndinni

En þá kem ég að
því sem að okkur snýr innbyrðis. Eftir því sem árin verða fleiri sem makríllinn leggur hingað leið sína hefur hann fært sig nær og nær ströndinni og á árinu 2012 má segja að hann hafi fyllt firði og flóa hist og her við landið. Árið 2012 er í raun fyrsta árið sem smábátaflotanum gafst raunverulegt tækifæri til að láta reyna á það hvort þessi veiðiskapur væri raunhæfur valkostur fyrir hann. Tilraunir með handfæraveiðar á makríl stóðu yfir fram að því og örfáir djarfir og harðduglegir menn létu ekkert stoppa sig í því að ná tökum á þessum veiðiskap. Ólíkt því sem gerðist hjá uppsjávarflotanum, sem þurfti ekki annað en að skipta um troll, þurftu smábátamenn að læra nýjan veiðiskap. Slíkt kostar mikla peninga, tíma og fyrirhöfn. Sjávarútvegsráðuneytinu var gerð rækilega grein fyrir þessu fyrir nokkrum árum.

Rökin gilda ekki inn á við

En nú, þegar málið snýr inn á við, að okkur Íslendingum sjálfum, virðast
rökin sem stjórnvöld og sum hagsmunasamtök ónefnd lemja Evrópusambandið með,
ekki skipta nokkru máli. Þegar makríllinn er genginn á mið smábáta- og
strandveiðiflotans er skyndilega ekkert pláss fyrir hann í veiðunum.
 
Ástæðan? Jú, uppsjávarflotinn á að vera búinn að ávinna sér réttinn til
makrílveiða innan lögsögunnar og aðrir þar með ekki gjaldgengir! Þetta er
svo dæmalaus þvættingur að maður efast um það í alvöru að einhver meining
liggi þar að baki. Smábáta- og strandveiðiflotinn hefur ekkert tækifæri
fengið til að beina kröftum sínum að þessum veiðum. Sá tími er rétt að
byrja. Það er algert lágmark að hann fái næstu 5-6 ár til að marka sinn sess
í makrílveiðum Íslendinga. Allt annað er óásættanlegt og gerir ekkert úr
þeim rökum sem Evrópusambandið fær að heyra.

Með því að segja eitt út á við og annað inn á við erum við að viðhalda því sem
að er vikið her í upphafi. Ef við höldum þessu til streitu er kannski
réttast að fara að kalla eftir nýrri útfærslu íslenska fánans – saumuðum úr
tveimur skinnum – að lágmarki.