Um vísindi og veruleika

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu 14. október sl.
Um vísindi og veruleika
Í ágætri grein sem Svanur Guðmundsson sjávarútvegsfræðingur, framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins, ritaði í Morgunblaðið 8. okt. sl. lýsir hann áhyggjum af stöðu Hafrannsóknastofnunar og telur að auknir fjármunir til stofnunarinnar geti bætt úr ástandinu. Ég er ekki viss um að of litlir peningar í umhverfi stofnunarinnar séu ástæða þess ástands sem þar hefur verið ríkjandi áratugum saman. Meðan viljinn til að breyta þekkingu á forsendum upplýsinga er ekki fyrir hendi verða nýjar upplýsingar eingöngu til þess fallnar að draga fleiri rangar ályktanir. Í greininni kemur m.a. fram að aukning í leyfðum kolmunnaafla þrátt fyrir langvarandi ofveiði (að mati vísindamanna) hafi komið Gunnþóri Ingvasyni framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar á óvart. Undrun er oft fyrsta merki þess að menn sjái að þeir þurfi að endurskoða þekkingu sína og vona ég að bæði Svanur og Gunnþór séu menn til að viðurkenna þörfina á því. Mín skýring á fyrirbærinu er einföld: Meint ofveiði var ekki ofveiði heldur næg veiði til að tryggja skilyrði nýliðunar og vaxtar í stofninum.
8F140B4D-A958-4E8B-9DB0-E4C1F1F40BE0_4_5005_c.jpeg
„Reynslan af „ofveiði kolmunnans 
hlýtur að kalla á þá spurningu 
hvað hefði gerst ef þorskstofninn 
hefði orðið sömu gæfu aðnjótandi.
Íslenski þorskstofninn er einn þeirra stofna sem Hafrannsóknastofnun hefur fengið að ráða sókninni í um áratuga skeið, byggt á aflareglu sem menn segja á vísindalegum grunni. Undirritaður hefur skrifað fjölda greina þar sem hann vefengir með rökum, nýjum hugmyndum og gömlum þessa aðferðafræði og telur hana hafa valdið íslensku þjóðinni stórtjóni. Reynslan af „ofveiði kolmunnans hlýtur að kalla á þá spurningu hvað hefði gerst ef þorskstofninn hefði orðið sömu gæfu aðnjótandi. Jafnframt mætti hugleiða hvaða áhrif það hefði haft á loðnustofninn, rækjustofninn, humarstofninn og fleiri stofna í umhverfi þorskstofnsins og að lokum þjóðarhag. Fyrirheit fiskifræðinga um aukinn og stöðugan þorskafla hafa brugðist aftur og aftur og þeir eyða stöðugt meiri orku í að leita afsakana í utanaðkomandi ástæðum í stað þess að viðurkenna að ástandið sé af þeirra völdum. Má ef til vill túlka þögn þeirra við gagnrýni sem viðurkenningu? Þetta hljóta að vera vonbrigði fyrir þá sem töldu að vísindaleg ráðgjöf gæti losað þá við óvissu og gert þeim kleift að stýra rekstri sínum við fyrirsjáanlegar aðstæður.
Undanfarin tvö ár hefur þorskafli verið skorinn niður um tæpan fjórðung þrátt fyrir þriggja áratuga „ábyrga stjórnun og nú síðast var nánast afturkölluð vonin sem gefin var í fyrra um góðar loðnuveiðar næsta ár. Þeir eru til sem vilja halda því fram að slíkar umræður séu hinu „stórkostlega aflamarkskerfi óviðkomandi. Því er ég ósammála og vil benda á að áður en frelsið til veiða var gert að söluvöru til að „bjarga fiskistofnum voru gefnar út svartar skýrslur byggðar á þeirri þekkingu sem hefur verið að molna niður síðustu fjóra áratugina. Stundum kann vissulega að vera ástæða til málamiðlana við frelsið á óvissutímum en slíkar málamiðlanir þurfa að vera tímabundnar en ekki múraðar í stein til áratuga eða lengur.
Um leið og ég óska Svani, Gunnþóri, Hafró og öllum öðrum velfarnaðar í störfum sínum vil ég enn og aftur minna á grundvallarkenningu mína um fáfræðina (og óvissuna, sem henni hlýtur að fylgja), sem ég setti fram eftir að hafa séð myndir af dauðri síld í Kolgrafafirði fyrir mörgum árum:
Mín grundvallarkenning um alheiminn er,
sem auðvelt mér reynist að sanna,
að ekkert er sjálfbært í heiminum hér
nema heimska og fáfræði manna.
Höfundur er sjómaður og ellilífeyrisþegi.