Vikulega greinir Fiskistofa frá umframafla við strandveiðar.
„Á strandveiðum má hver bátur landa að hámarki 650 kg. af slægðum afla í þorskígildum talið í hverri veiðiferð. Undantekning er þó ef ufsa er landað sem strandveiðiafla í verkefnasjóð, sbr. 4. tölul. 5. gr. um reglugerðar um strandveiðar, en þá reiknast ufsaaflinn ekki til strandveiðiafla., segir á heimasíðu stofunnar.
Þann 25. maí sl. var fjallað um ósk LS til að draga úr umframafla og minnka skriffinnsku við útsendingu sekta. Tillaga LS var og er að tekin verði upp „tveggja róðradaga pörun þar sem svigrúm yrði veitt að 800 kílóa dagsafla í þorski. Þannig myndi sá sem landaði t.d. 794 kg, geta haft tekjur af því sem fram yfir fór með að vera 20 kg undir hámarkinu (774 kg) næsta dag með því að landa 754 kg eða minna.
Vel var tekið í tillögu LS, en því miður náði hún ekki í gegn fyrir yfirstandandi strandveiðitímabil. Tæknilegar hindranir eru hins vegar ekki lengur til staðar og ætti því ekkert að vera því til fyrirstöðu að aðferðin verði sett í reglugerð á næsta ári.
LS hefur tekið saman tölur úr tilkynningum Fiskistofu. Að lokinni 12. viku strandveiða, 19. – 22. júlí, nemur umframafli alls um 114 tonnum í þorskígildum talið. Flestir fóru fram yfir í 10. viku 5. – 8. júlí 292 talsins með 14,9 tonn, en fæstir í 7. viku 14. – 16. júní 147 bátar með 5 tonn alls í umframafla.
Meðaltal dagsafla á bát sem veiðir yfir hámarkið eru 45 kg í ígildum talið. Vikulega landa að meðaltali 21 bátar umfram 100 kg.
Vitaskuld eiga menn að passa upp á að veiða ekki umfram það sem leyfilegt er, en það getur að sama skapi verið erfitt, því menn vilja jú alltaf ná skammtinum.
Pörunin framangreinda myndi því sannarlega koma sér vel.