Umræða um makrílfrumvarp

Frumvarp um kvótasetningu á makríl var lagt fram á Alþingi 2. apríl síðastliðinn. Frumvarpið hefur fengið litla athygli fjölmiðla en líklegt er að tímasetning seint um kvöld við framlagningu þess, kjarabarátta og gjaldþrot flugfélags spili þar inn í.
Frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda þar sem aðilum var boðið að senda inn athugasemdir.   Umsögn frá Landssambandi smábátaeigenda.pdf 
Í fyrstu umræðu um frumvarpið sem varði í um 2 tíma, tóku 9 þingmenn til máls, en til samanburðar tók fyrsta umræða um frumvarp Sigurðar Inga um kvótasetningu á makríl árið 2015, 6 klukkutíma og 19 þingmenn tóku til máls. En frumvarp Sigurðar Inga var svæft í nefnd eftir að ríflega  53 þúsund Íslendingar skoruðu á forseta Íslands  að vísa í þjóðaratkvæði lögum sem ráðstafa fiskveiðiauðlindum til lengri tíma en eins árs. 
Ljóst er að ef frumvarpið verður óbreytt að lögum mun hlutdeild smábáta verða afar rýr, eða rétt rúmlega helmingur þess sem hún hefur verið undanfarinn ár. En viðmiðunartími veiðireynslu samkvæmt frumvarpinu er langt umfram þann tíma sem smábátar höfðu tækifæri á að skapa sér veiðireynslu á. Bæði vegna fjarlægðar frá veiðislóð og veiðibúnaðar smábátabáta sem í öllum tilvikum þurfti að sérsmíða þegar ljóst var eftir 2012, að hægt væri að veiða makríl á veiðislóð smábáta.
Í fyrstu umræðu kom fram jákvæður tónn hjá nokkrum þingmönnum, til leiðréttingar á hlut smábáta. Að lokinni 1. umræðu var samþykkt að vísa frumvarpinu til atvinnuveganefndar. Í vinnu nefndarinnar verður vonandi brugðist við þeim ábendingum varðandi skerðingu á hlut smábáta, sem gerðar hafa verið fram til þessa m.a. í samráðsgátt stjórnarráðsins. 
Umsagnarfrestur við frumvarpið rennur út 30. apríl og eru smábátaeigendur hvattir til að láta skoðun sína í ljós með þvi að senda inn umsögn. Hér að neðan má nálgast leiðbeiningar um umsagnir og rétt að benda á að öllum er frjálst að senda nefnd skriflega umsögn um þingmál að eigin frumkvæði og hefur slík umsögn sömu stöðu og þær sem berast samkvæmt beiðni atvinnuveganefndar. 
Hér að neðan er fyrsta umræða klippt niður í um 40 mínútur.
Hægt að nálgast umræðuna í fullri lengd á vef Alþingis með því að blikka á hlekkinn hér að neðan.
Ásmuindur í ræðustól.png