Eins og komið hefur fram undanfarið hefur verið hart deilt á sjávarútvegsráðherra vegna þeirrar ákvörðunar um að færa 200 tonn af strandveiðisvæði D á önnur veiðisvæði. Fjölmörg byggðalög og svæðisfélög hafa ályktað um gjörninginn og krafist breytinga eða leiðréttingar á þessari embættisfærslu. Fyrir stuttu bættist enn eitt bæjarfélagið við en það var Akraneskaupstaður og má sjá ályktunina hér.
Í viðtali við Gunnar Braga Sveinsson ráðherra á Hringbraut þann 14. júlí sl. segir hann að öllu hafi verið úthlutað sem hægt sé að úthluta á fiskveiðiárinu en spyr jafnframt hvaðan eigi að taka þær heimildir ef leiðrétta eigi gjörninginn.
Til þess að auðvelda ráðalausum ráðherra vinnuna er hægt að benda á a.m.k. þrjár auðfærar leiðir.
Sú fyrsta er úr almenna byggðakvótanum en aðeins er búið að úthluta um 57,1 % af honum þann 1. júní sl. og þá sitja eftir 2713 tonn – sjá hér.
Önnur leiðin er úr ónýttri línuívilnun í þorski en hún færist ekki á milli ára. Í dag eru eftir um 290 tonn og er mjög ólíklegt að hún nýtist öll það sem eftir lifir fiskveiðiársins. Línuívilnun.
Þriðja leiðin til þess að koma þó allavega til móts við strandveiðisjómenn er að sleppa þeim úr kerfinu þegar strandveiðiheimildir eru búnar á svæðinu og gefa þeim kost á því að veiða ufsa án heimilda en aðrar tegundir innan veiðiheimilda. Það eru óveidd um 7500 tonn af ufsa á fiskveiðiárinu.
Það er ekki að ástæðulausu að menn rísa upp og sjá engin önnur úræði en að beita samstöðu og þrýstingi til að bregðast við órétti sem þeir eru beittir.
Ráðherra hefur 2-3 daga til að lagfæra mistökin og nú er bara að girða sig í brók.
Það tekur ekki nema augnablik að taka rétta ákvörðun.